Fimmtudagur 23. júní 2016

Stúlkurnar voru vaktar klukkan níu í morgun. Úti var lágskýjað en hlý gola og því milt veður. Eftir hefðbundin morgunverk eins og þvo sér, bursta tennur og greiða hár komu stúlkurnar í morgunmat sem að þessu sinni var veglegri en hina morgnana því allar stúlkur sem hafa sofið 3 nætur í Vindáshlíð í flokki eru orðnar Hlíðarmeyjar. Eftir fánahyllingu var hópavinna í fjórum hópum sem undirbjuggu Vindáshlíðarmessu. Einn hópur sá um bænir, hringja kirkjuklukkum og annað slíkt. Annar undirbjó helgileik, sá þriðji var sönghópur og fjórði hópurinn vann skreytingar í kirkjuna. Í hádegismat var svo lasagna sem féll vel í kramið. Eftir uppvask og frágang hófst svo messan í kirkjunni hér í Vindáshlíð sem heitir Hallgrímskirkja. Hún var hlutt hingað frá Saurbæ í Hvalfirði í september árið 1957. Þema messunnar var miskunsami Samverjinn sem kennir okkur að allt sem við viljum að aðrir menn geri okkur, það eigum við að gera öðrum. Kjarngóður boðskapur úr Matteusarguðspjalli, kafla 7, versi 12. Eftir yndislega stund í kirkjunni héldu íþróttakeppnir og brennó síðan áfram fram að kaffi. Í nónhressingu rann heimabakað bakkelsi ljúflega ofan í maga stúlknanna og þegar þær höfðu drukkið vel hélt íþróttakeppni áfram fyrir þær sem vildu. Einnig var boðið upp á gerð bænabókar fyrir þær sem vildu en þar sameinaðist föndur og listskreytingar í litlu hefti sem stúlkurnar koma svo með heim. Í kvöldmatinn voru kjötbollur með brúnni sósu, sultu, kartöflumús og grænmeti. Stelpurnar borðuðu þvílík ósköp og klöppuðu ráðskonuna og hennar starfsstúlkur upp í þakklætisskyni. Kvöldvakan hófst eftir frágang og fór nú fram í íþróttahúsinu með söng og leikjum. Eftir kvöldhressingu og kvöldstund með hugleiðingu úr Guðs orði þvoðu stúlkurnar sér og burstuðu tennur – sumar úti í læk. Síðan fengu nokkrar stúlkur áburð vegna flugnabita sem hefur nokkuð fjölgað. Það voru því lúnar en glaðar stúlkur sem fóru í háttinn og svifu inn í draumaheima eftir notarlega stund með bænakonu sinni.