Föstudagur 24. júní 2016

Í morgun var vakið klukkan níu enda flestar búnar að sofa í tíu tíma. Léttskýjaður himinn og hressileg gola þýddi færri flugur og horfðum við því bjartsýnar fram á daginn sem var jú veisludagur. Morgunmatur og fánahylling áttu sinn fasta sess og svo morgunstund. Í kjölfarið fór fram keppni í brennó á milli herbergja. Í hádegismat var ávaxtasúrmjólk með súkkulaðiflögum. Með því var borið fram margskonar smurt brauð sem þakklátir magar tóku fúslega við enda þurfa kraftmiklar stelpur mikla næringu. Eftir hádegi fór allur hópurinn í göngu í og upp með læknum. Úti var líka farið í leiki og sungið. Í nónhressingu var eins og alltaf heimabakað góðgæti, núna var það súkkulaðikaka og bananabrauð. Þá tók við hárgreiðslukeppni og voru þar bæði frumlegar og flottar greiðslur kynntar. Á sama tíma unnu þær sem vildu í bænabækurnar og einhverjar fóru út að leika. Skömmu fyrir sex klæddu stúlkurnar sig allar upp og snyrtu því veislumatur hófst með pompi og prakt á slaginu sex með myndatöku af hverju herbergi með sinni bænakonu. Stúlkurnar gengu svo prúðbúnar og sætar inn í skreyttan veislusal þar sem á borð voru bornar heimagerðar pizzur. Þar voru líka afhent verðlaun fyrir öll helstu afrek einstaklinga og flest í keppni herbergja. Eftir frágang hófst kvöldvakan sem samanstóð af leikritum, auglýsingum og sjónvarpi Vindáshlíðar, allt saman heimagert grín með söng og gleði. Eftir langa kvöldvöku settustu stúlkurnar í setustofu, gæddu sér á ávöxtum, kexi og íspinnum og hlustuðu á hugleiðingu úr Guðs orði. Að endingu fóru þær sem vildu út í læk að bursta tennur þrátt fyrir nokkuð rok og rigningu. Það voru því sælar og glaðar stúlkur sem gengu frekar seint til náða eftir viðburðaríkan veisludag.