Laugardagur 25. júní 2016

Í dag er síðasti dagurinn í þessum flokki. Stúlkurnar voru vaktar klukkan níu og fengu morgunmat og þá var tilkynnt hvaða herbergi unnu umgengniskeppnina. Tvö herbergi voru hnífjöfn og fengu því allir íbúar þeirra herbergja viðurkenningu. Eftir fánahyllingu fóru fram úrslitaleikir í brennó og að þeim loknum keppti sigurliðið við úrvalslið starfsfólks. Leikurinn var hörkuspennandi en að lokum sigruðu foringjar sigurlið stúlknanna. Þá var keppni milli foringja og alls flokksins og þann leik burstuðu stelpurnar. Þá var komið að því að pakka og undirbúa heimferð. Stúlkurnar voru röskar að raða í töskur og taka af rúmum og setja farangurinn út; mjúkar vinstra megin og harðar hægra megin þegar gengið var út J. Eftir uppboð á óskilamunum var hádegismatur; pylsur með öllu sem hægt var að hugsa sér í brauðið. Síðan fékk hver hópur glaðning frá Vindáshlíð, söngbók Vindáshlíðar og armband með áletruðu nafni Vindáshlíðar. Eftir hádegismat var farið í leiki og hófst svo lokastundin í kirkjunni okkar hér. Þegar henni var lokið var boðið upp á hressingu, svo enginn færi nú svangur heim. Allt er gott sem endar vel og nú kveðjum við Vindáshlíð að sinni. Þessi vika hefur verið mögnuð upplifun í alla staði og fengum við flestar gerðir veðurs. Stúlkurnar, bæði yngri og eldri, eru kraftmikill og skemmtilegur hópur. Við þökkum fyrir samveruna og biðjum Guð að blessa hverja og eina, og vonum að minningin um Vindáshlíð og boðskapinn úr orði Guðs megi búa með okkur og næra um alla framtíð.

Með góðri kveðju og þökk fyrir að hafa fengið að vera með ykkur,

Auður Pálsdóttir,
forstöðukona