Í morgun mættu 85 fjörugar stúlkur upp í Vindáshlíð. Byrjað var á því að raða í herbergi en þar á eftir komu stúlkurnar sér fyrir ásamt því að þær kynntust hvor annarri, bænakonunni sinni og staðnum betur. Veðrið fór mjög batnandi með deginum og eftir ljúffenga blómkálssúpu sem stúlkurnar gæddu sér að í hádegismatnum var haldið í samhristing í íþróttahúsinu. Þar léku þær ýmsa skemmtilega leiki, mólíkúl, ásadans, Guffa leik og fóru í skotbolta. Eftir það fóru þær síðan í spilahlaupaleik sem heitir Stratego og gengur útá herkænsku.
Í kaffitímanum var boðið uppá dúnmjúka jógúrtköku og gómsætt kryddbrauð. Þar eftir byrjaði brennókeppnin á fullu og nokkur herbergi kepptu á móti hvort öðru. Einnig hófst íþróttakeppnin á húshlaupi ásamt því að boðið var uppá að fá andlitsmálningu í setustofu, íslenska fánann, í tilefni af EM leiknum síðar um daginn. Eftir það fengu stúlkurnar grjónagraut en beint eftir matartímann hófst fótboltaleikurinn. Á meðan að honum stóð voru spil og litir í boði fyrir þær stúlkur sem höfðu ekki brennandi áhuga á leiknum. Eftir að Ísland vann England var svakaleg gleði í húsinu og fórum við í framhaldi af því að fá okkur kvöldkaffi og þaðan á hugleiðingu.
Eftir hugleiðinguna höfðu allar bænakonurnar falið sig á víð og dreif um skóginn og kominn tími fyrir hvert herbergi fyrir sig að finna sína bænakonu. Misvel tókst herbergjunum að finna sína bænakonu en á endanum voru þær allar komnar í hús. Þá fóru stúlkurnar að hátta sig, bursta og pissa og síðan kom bænakonan þeirra inn að bjóða góða nótt.
Kær kveðja
Hulda Guðlaugsdóttir
Forstöðukona