Í morgun vöknuðu stúlkurnar hressar og kátar eftir góðan nætursvefn. Þá var borðaður morgunverður og farið upp að fána. Eftir það var haldið á biblíulestur en síðan tók við íþróttakeppnin brúsahald ásamt því að nokkur herbergi kepptu í hinni bráðspennandi brennókeppni eftir því að verða ,,Brennómeistarar Vindáshlíðar”.
Þá var haldið í hádegisverð en þar fengu stelpurnar pylsupasta og brauð með sultu og osti. Þegar þær höfðu borðað var farið af stað í Ævintýrahús, en það er leikur þar sem farið er í ævintýraferð á hina ýmsu staði og hittu stelpurnar Pétur Pan og Skellibjöllu, Þyrnirós og úlfinn í Rauðhettu. Fóru þær blindandi á milli staða og má með sanni segja að spenna, gleði og ánægja hafi verið í loftinu.
Eftir leikinn fengu stúlkurnar hina vinsælu gullköku ásamt stærðarinnar heilsubótaköku sem léku vel við bragðlauka þeirra. Í kaffitímanum fengu stúlkurnar að vita af viðburði kvöldsins en eftir kvöldmatinn var farið í ,,Vindáshlíð got talent” þar sem stelpurnar sýna allskyns listir og hæfileika.
Fjölmargir hæfileikar fengu að líta dagsins ljós, dans, leikir, fimleikar og fleira en þau Frikki Dór og María Ólafs voru dómarar og Auddi Blö var kynnir. María tók lagið Lítil skref með Audda Blö og Frikki Dór fékk að vera í bakröddum, honum þótti þetta bara ekki skemmtilegt lag svo hann endaði á því að slökkva á því en vildi mun frekar halda áfram að sjá hæfileika stúlknanna í Vindáshlíð. Frikki hafði fyrr um kvöldið sýnt fótboltasnilli sína.
Eftir keppnina var haldið í kvöldkaffi og þaðan á hugleiðingu. Beint eftir hugleiðinguna var ekki farið að gera sig til fyrir svefn heldur fóru stelpurnar í leikinn ,,Survivor”. Var þeim skipti niður í fimm ættbálka sem hjálpuðust að á mismunandi stöðum í Vindáshlíð. Ein stöðin var til dæmis á fótboltavellinum og þar reyndi mjög á samvinnu þar sem stelpurnar þurftu að leysa þrautir til að komast yfir völlinn. Þurftu þær að borða ýmislegt mis girnilegt í matsalnum en tvær hugrakkar stúlkur úr hverjum ættbálk þurftu að draga númer og kom þá í ljós úr hvaða skál þær þyrftu að borða ásamt fleiri skemmtilegum stöðvum.
Eftir leikinn komu þær þreyttar og sælar inn en þær sem vildu fengu að tannbursta sig í læknum sem olli mikilli gleði.

Bestu kveðjur
Hulda Guðlaugsdóttir
Forstöðukona