Í gærmorgun voru stúlkurnar vaktar með gítarspili og söng af foringum í dulargervi stráka, sumar með skegg, aðrar með barta, í hettupeysum og með derhúfur. Það var strákaþemadagur. Eftir hefðbundinn morgun og hádegisverð tóku stúlkurnar þátt í Hungurleikjunum. Markmiðið var að finna Katniss og Peeta, en þau geta hjálpað stúlkunum að komast að lokamarkinu, þrettánda umdæminu. Á víð og dreif á svæðinu voru friðargæsluliðar og ýmsar hættur leyndust á vegi þeirra, s.s. eldhnettir og lentu sumar í því að fá rafstuð frá friðargæsluliðunum.
Eftir Hungurleikana var haldið í kaffi og stúlkurnar gæddu sér á gulrótarköku og kanillengjum. Dagskráin hélt síðan áfram að vanda og tóku margar af stúlkunum þátt í opnu íþróttahúsi þar sem þær fengu að leika sér í skotbolta, en aðrar kláruðu íþróttakeppnirnar og sumar gerðu vinabönd. Í kvöldmatinn voru dýrindis fiskibollur og eftir matinn var haldið í ,,Vindáshlíðs next top model.” Í þeirri keppni velur hvert herbergi sér tvö módel og vinnur saman að því að gera kjóla eða annan fatnað á þau, efniviðurinn sem í boði var voru svartir ruslapokar, klósettpappír, garn og ýmislegt sem hægt er að finna í náttúrunni, s.s. blóm og greinar. Svo hugmyndaflugið fékk að njóta sín og hægt er að segja að hægt sé að finna marga klóka klæðskera hér í Vindáshlíð.
Þá var haldið í kvöldkaffi og hugleiðingu, en í kvöldkaffinu heyrðu stúlkurnar söguna um manninn í munkaklaustrinu sem vildi vita hvað hljóðið ,,Chúchú coco puffs” væri. En ég ætla ekki að segja ykkur þá sögu hér þar sem hún er mjög löng en skemmtileg.
Stelpurnar fóru þá í háttinn sælar eftir daginn.

Bestu kveðju
Hulda Guðlaugsdóttir
Forstöðukona