Í morgun vöknuðu stúlkurnar glaðar við lagið ,,Waka waka” en það er kominn veisludagur, síðasti heili dagurinn okkar saman og viljum við ná að njóta hans í botn. Það var mjög fallegt veður og fánahyllingin því frískandi svona rétt eftir morgunmat og fyrir biblíulestur. Beint eftir biblíulesturinn fóru síðan allar stelpurnar niður í íþróttahús að fylgjast með úrslitaleiknum í brennó á milli Hamrahlíðar og Eskihlíðar en það var síðan Hamrahlíð sem stóð uppi sem ,,Brennómeistarar Vindáshlíðar!“
Eftir leikinn var íþróttahúsið opið og sippkeppnin hélt áfram en síðan var komið að hádegismat. Eftir hádegismat fóru stelpurnar í ,,Mission Impossible” leik þar sem hvert herbergi fékk lista af ýmsum hlutum eða þrautum til að taka myndir af og söfnuðu þannig stigum.
Þá var komið að kaffi og en í boði var veislusúkkulaðikaka og bananabrauð sem þær borðuðu með góðri lyst. Hún Erna Sólveig á afmæli í dag og sungum við fyrir hana Vindáshlíðarafmælissönginn! Innilega til hamingju með daginn þinn Erna!
Eftir kaffi var svo komið að því að finna fínni fötin sín, hárgreiðslukeppni fór af stað og vinagangur. En á vinagangi geta herbergin ákeðið eitthvað skemmtilegt til að gera, haft nuddstofu, naglalakk, hárgreiðslu eða hvað sem þeim dettur í hug að bjóða uppá.
Loks kom svo að veisluhöldunum, en hófust þau á því að stelpurnar hittust fyrir framan fánann, tókum við hann niður og sungum svo ,,Vefa mjúka” þegar við gengum til baka að Vindáshlíð. Hvert herbergi fór svo í myndatöku með sinni bænakonu og settist til borða með henni. Í boði voru ljúffengar pizzur sem bakaðar höfðu verið frá grunni og borðuðu stúlkurnar heilan helling af þeim á meðan að á viðurkenningum stóð.
Eftir matinn var svo veislukvöldvakan en á henni skemmtu foringjar stelpunum með allskyns atriðum og fjörugum lögum. Endaði kvöldvakan svo á Vindáshlíðar eurovisionlaginu sem sungið er í lok hvers flokks. Á hugleiðingunni fengu stelpurnar að gæða sér á frostpinna en síðan kom bænakonan inn til þeirra og bauð góða nótt eftir góðann dag.
Bestu kveðjur
Hulda Guðlaugsdóttir
Forstöðukona