Nú er síðasti dagurinn okkar saman og við erum aftur heppnar með veður.  Stelpurnar voru vaktar við ljúfan söng og gítarspil kl 9.  Við nærðum okkur í morgunmatnum og auglýstum óskilamuni sem rötuðu í réttar hendur.  Biblíulesturinn var á sýnum stað og síðan var hinn æsispennandi brennóleikur þar sem foringjar kepptu við sigurliðið.  Síðan fékk herbergið sem var í öðru sæti að keppa með foringjunum á móti öllum stelpunum í flokknum.  Því næst var klárað að pakka í töskur og pylsur borðaðar úti.  Í útiverunni gengum við að Pokafossi og enduðum svo á samveru í kirkjunni þar sem stelpurnar fengu Vindáshlíðar armbönd.  Að lokum var arkað niður á fótboltavöll og sest í hring með bænakonunum sem gáfu stelpunum kaffi og söngbækur.

Þetta er búin að vera yndisleg vika, full af skemmtilegum uppákomum sem eflaust eiga eftir að lifa lengi í minningunni.  Ég þakka ykkur kærlega fyrir að treysta okkur fyrir börnunum ykkar.  Þær eru algjörar perlur sem við kveðjum með söknuði.  Ég óska ykkur alls hins besta og þakka fyrir mig.

Kær kveðja Þóra forstöðukona