Hér í Vindáshlíð eru komnar saman tæplega 60 stelpur, flestar í fyrsta skipti og var rútuferðin uppeftir mjög áhugaverð og skemmtileg. Stelpurnar voru mikið að spyrja og velta fyrir sér hvernig þetta yrði nú allt saman. En fyrsti dagur gekk frábærlega vel, allar sem vildu vera saman í herbergi fengu það og allir fengu bænakonu, foringja sem kemur í herbergið til stelpnanna á kvöldin, ræðir við þær og biður með þeim fyrir svefninn. Við fyrstu athugun átti að rigna alla vikuna en sem betur fer er ekki enn farið að rigna ( 7, 9, 13) því gátum við verið úti að leika í gær án þess að verða rennblautar og fórum saman í skemmtilegan ratleik, þar sem stelpurnar kynnstust aðeins svæðinu betur og hvor annarri. Í hádeginu var súpa og brauð og svo dýrindis plokkfiskur í kvöldmat. Brennóleikir hófust á milli herbergja og fyrsta íþróttakeppnin var haldin. Eftir kvöldmat var kvöldvaka niðri í íþróttahúsi þar sem farið var í hina ýmsu leiki, sungið og dansað. Síðan var komið í kvöldkaffi og hugleiðingu, þar sem margar voru orðnar verulega þreyttar. Örlítil heimþrá gerði vart við sig en stoppaði ekki lengi og ró var komið í húsið uppúr 23.

Stelpurnar áttu svo að vera vaktar klukkan  9 en vel flestar voru vaknaðar fyrir þann tíma, vel hvíldar og spenntar fyrir nýjum degi.  Það var vel borðað í morgunmat, síðan ruku allar upp á fána og svo á Biblíulestur. Eftir það hófust brennóleikir, íþróttakeppni, spil og vinabönd áður en kemur að hádegismat. Við stefnum á meiri útiveru í dag þar sem sólin er aðeins hjá okkur og ekki enn farið að rigna.

kv. Hanna Lára, forstöðukona í 6.flokk