Sæl öll, dagur tvö hélt áfram að vera jafn frábær og fyrsti dagurinn og stelpurnar svo glaðar og jákvæðar. Við fengum pylsupasta í hádegismat sem stelpunum fannst ÆÐI og borðuðu vel og mikið. Við héldum áfram að fá gott veður og stelpurnar fóru í göngu að Pokafossi og Brúðarslæðu, busla og hafa gaman. Síðan eftir kaffi var haldið áfram í brennó, íþróttum, frjálsum tíma, vinaböndum og ýmsu öðru skemmtilegu. Við vildum endilega nýta þetta frábæra veður sem kom svo óvænt og kveikja varðeld eftir kvöldvöku en þegar við hringdum til að fá leyfi hjá slökkviliðinu þá fékkst ekki leyfi með svona stuttum fyrirvara. En eins jákvæðar og miklir snillingar þessar stelpur eru þá fórum við samt út og þóttumst hafa varðeld, sungum og fengum sykurpúða og kvöldkaffi. Þetta varð að mjög skemmtilegri kvöldstund og hefði ekki gengið upp nema fyrir hvað stelpurnar ykkar eru frábærar. Síðan var farið á hugleiðingu, flestar orðnar vel þreyttar eftir daginn. Stelpur sem vildu fara að bursta tennur í læknum fengu það, hinar græjuðu sig bara inni og fengu svo allar bænakonurnar til sín í góða stund. Nóttin gekk vel og allir sváfu vel.
kv. Hanna Lára, forstöðukona 6.flokks