Fjórði dagur komin og vikan flýgur frá okkur. Í gær var hefbundinn dagur í Vindáshlíð, morgunmatur, fáni, biblíulestur og svo íþóttir og brennó. Mikil spenna er komin í leikana, hverjir verða brennómeistarar 6.flokks, eða íþróttadrottning og hvaða herbergi vinnur innanhúskeppnina. Eftir hádegismat, sem var píta með hakki og grænmeti, var farið í göngu niður í réttir og urðu nokkrar fyrir smá vonbrigðum þegar við vorum ekki á leið í alvöru réttir, engar kindur sjáanlegar. En hefðin er sú að stelpurnar leika kindur og foringjar reyna að ná þeim og draga í dilka, t.d eftir háralit. Þegar var komið til baka var kaffitími og svo fóru þau herbegi sem áttu að sjá um kvöldvöku að undirbúa hana, þær sem vildu fóru í brennó, þar sem allir voru á móti öllum og íþróttirnar héldu áfram. Einnig voru vinaböndin á sínum stað, spjall og spil. Eftir kvöldmat fórum við á hressa kvöldvöku þar sem var sungið, farið í leiki og horft á leikrit. Þaðan var haldið í kvöldkaffi og loks hugleiðingu. Það voru margar farnar að geispa á hugleiðingunni og farnar að hugsa vel til koddana sína en þegar þær voru búnar að hátta, bursta og pissa og voru að bíða inn á herbergjum eftir bænakonunm sínum þá brá þeim heldur betur því þá komu foringjarnir í náttfötunum sínum, syngjandi kátar, berjandi á pottlok og kallandi að það væri komið náttfatapartý. 🙂 Haldið var í halarófu inn í matsal til að dansa upp á borðum og héldu foringjar uppi stemningu í góða stund með þeim. Tvær eðal „ræstikonur“ komu og voru að skammast eitthvað og sýna sig við mikil hlátrasköll stelpnanna og enduðu á að gefa þeim ís. Að lokum var lesið fyrir þær og foringjarnir sungu þær inn í rúm aftur og nærri allar sofnuðu á nokkrum mínútum.
Í dag fengu þær kókópuffs í morrgunmat þar sem þær eru orðnar alvöru Hlíðarmeyjar, en sagan segir að þegar maður er búin að sofa 3 nætur í Vindáshlíð þá sé maður orðin Hlíðarmey. Fyrir hádegi eru allar stelpur í hóp til þess að undirbúa Guðsþjónustu sem verður eftir hádegið, leikritahóp, sönghóp, skreytingahóp og bæna – og undirbúningshóp.
Við erum á fullu að setja inn myndir – endilega skoða þær 🙂 Svo megið þið fara að láta okkur vita ef þið ætlið að sækja stelpurnar ykkar upp í Vindáshlíð, ef þær eiga ekki að fara með rútu – takk 🙂
Kv. Hanna Lára, forstöðukona 6.flokks