Héðan úr Hlíðinni er svo sannarlega allt gott að frétta.
Kátar stelpur dvelja hérna hjá okkur núna – svolítið fáar, svo við erum bara að nota nokkur herbergi – sem þýðir að hver stúlka fær talsvert meiri þjónustu og athygli en í fullum flokkum (þó að vissulega sé öllum sinnt vel líka þá, bara svolítið mikið extra dekur núna).
Í hverju herbergi eru tvær til þrjár bænakonur sem koma inn til stelpnanna á kvöldin og eiga með þeim notalega stund fyrir svefninn. Þær borða með stelpunum sínum á matmálstímum og eru þeim innan handar yfir daginn.
Stelpurnar eru allar afspyrnu ljúfar, svo ljúfar að einstaka foringjar í pásum hafa farið að undrast um hvort að stelpurnar séu í alvörunni í húsinu. Helsta verkefnið okkar núna er að hafa gaman, kveikja aðeins á látunum í þeim og hjálpa þeim að þétta hópinn.
Í gær var farið í gönguferð og nánasta umhverfi skoðað. Síðan voru íþróttir og brennó, limbó, húshlaup, bundin vinabönd, lesið, spjallað og leikið.
Eftir kvöldmatinn var Amazing Race keppni þar sem stelpurnar fóru saman um svæðið, hvert herbergi saman í hóp, og leystu ýmiss verkefni eins og að fylla fötu af vatni með því að bera vatnið í lófunum eða munninum eða hvaða annan hátt sem þeim datt í hug (nokkrar húfur voru vel blautar eftir keppnina hehe), hlaupa niður að hliði á góðum tíma, svara spurningum um foringja, leika atriði úr Lion King eða High School Musical, semja dans og fleira skemmtilegt.
Að því loknu var kvöldhressing og hugleiðing. Bænakonurnar kíktu svo inn í herbergin og áttu stund með sínu herbergi þegar allar voru komnir í náttfötin og búnar að bursta tennur (flestar úti í læk að sjálfsögðu). Svo var farið með sængur og kodda og svefnpoka niður á dýnur og við horfðum saman á Hairspray.
Í dag erum við búnar að vera að spjalla um ýmiss málefni sem myndin snertir á eins og t.d. hina ýmsu fordóma. Við ræddum um að reyna að gera eins og Jesús gerir og horfa framhjá því sem aðrir sjá og reyna frekar að sjá hver manneskjan er en hvernig hún lítur út. Við ætlum að vanda okkur núna í vikunni að æfa okkur í því og að æfa okkur að vera góðir vinir þeim sem í kringum okkur eru. Því ef allar æfa sig í því þá koma líklega til með að myndast hér vináttubönd sem endast til frambúðar.
Í dag ætlum við svo að leyfa stelpunum að velja sér í hópa sem ætla að vinna útfrá myndinni á ýmsan hátt. Þar er í boði leiklistarhópur sem ætlar að æfa upp atriði úr myndinni, sönghópur sem ætlar að syngja lög úr myndinni, danshópur sem æfir dansana, myndlistarhópur sem ætlar að mála myndir og gera listaverk tengd fordómum og öðru sem myndin tekur á og svo fréttahópur sem ætlar að skrásetja allt sem er í gangi.
Það verður spennandi að fylgjast með þessum hópum og sjá afraksturinn af þeirra vinnu í lok vikunnar. Við starfsstúlkurnar hér uppfrá hlökkum mikið til að vera með þessum frábæru stelpum hér alla vikuna og sjáum fram á afar skemmtilega viku.