Já, hér er heldur betur búið að vera gaman.
Í gærkvöldi voru stelpurnar búnar að keppa í Minute to Win it, eiga notalega helgistund þar sem allar tóku virkan þátt í bænahring og biðu eftir bænakonunum sínum tilbúnar að fara að sofa. Þá bárust þær fréttir að bænakonurnar væru allar horfnar og stelpurnar stukku út með þau fyrirmæli að finna bænakonurnar, þær væru í felum einhversstaðar rétt hjá húsinu.
Um leið og stelpurnar voru komnar út braust hinsvegar út brjálað náttfatapartý í matsalnum og þá voru allar bænakonurnar þar í miklu stuði.

Stelpurnar voru mislengi að fatta þetta partýstúss enda svo mikið keppnisskap í sumum hér að þær voru komnar lengst inn í skóg að leita – en á nokkrum mínútum var búið að hóa öllum saman og allir áttu stórkostlegt náttafatapartý hér í gærkvöldi með söng, dansi, leikjum og ýmisskonar húllumhæ.

Í dag var því útsof en stelpurnar vöknuðu og fengu dásamlegan amerískan bröns því í dag er amerískur dagur í Vindáshlíð. Pönnukökur, eggjahræra og beikon voru á boðstólum öllum til mikillar kæti.

Í hádeginu voru svo amerískir hamborgarar og franskar með.

Eftir hádegið birtist svo Effie Trinket úr Hunger Games bókunum hér og tilkynnti stelpunum að þær hefðu verið valdar til að taka þátt í hungur leikunum. Þetta voru þó talsvert vægari hungurleikar en þeir í samnefndum bókum og bíómyndum en mikill eltingaleikur hófst og barst út um alla hlíðina okkar. Katniss og Peeta hittu stelpurnar og hjálpuðu þeim á leið sinni í griðastaðinn, varðgæsluliðar eltu þær og frystu með einu handtaki og þá þurftu allir að leggjast á eitt að bjarga þeim sem var frystur.
Ólíkt hungurleikunum í bókinni er þessi leikur fyrst og fremst um samvinnu og að hjálpast að.

Í kaffinu var sunginn afmælissöngur fyrir afmælisbarn dagsins og fékk hún dýrindis sjónvarpsköku með kertum og fánum. (og svo fengu allir hinir líka köku auðvitað, enda afmælisveisla – en svo voru sko líka ávextir í boði, erum ekkert bara í óhollustunni sko… )

Eftir kaffi héldu hóparnir okkar áfram sínum störfum og virðast stelpurnar vera að njóta sín í botn í þeim hópum sem þær völdu sér. Það verður spennandi að sjá afraksturinn hjá þeim.

Núna eru allir úti í Capture The Flag – eða Fangaðu Fánann.

Eins og þið sjáið er nóg að gera hjá okkur og mikil gleði yfir öllum hér, bæði starfsfólki og stelpum.
Aðeins hefur skyggt á gleðina hjá okkur að lúsmýið er búið að vera að hrekkja okkur svolítið en virðast sumar okkar vera bragðbetri en aðrar. Einstaka stelpa (og starfsstúlka) hefur fengið slatta af bitum en aðrar virðast vera að sleppa vel. Hér er því after-bite í stöðugri notkun. Engin er þó að láta nokkur bit skemma stemmninguna og þær harka þetta rosalega vel af sér þessar elskur.

Annars er bara gleði og gaman hér uppfrá og við njótum lífsins til hins ýtrasta.