Upp er runninn veisludagur, ekkert sérlega skír og fagur en hann er ánægjulegur þó að hann sé svolítið blautur.
Stelpurnar eru á fullu að undirbúa atriðin úr Hairspray til að sýna í kvöld – ég heyri þær syngja og dansa hér við hliðina á skrifstofunni minni svo glymur í. Ég hlakka rosalega til að sjá afraksturinn í kvöld.

Aðrar eru á fullu að útbúa myndband með allskyns gríni og glensi úr flokknum og enn aðrar eru að mála myndir og gera listaverk til að setja upp listasýningu á eftir.

Í gær var farið í geysilegan eltingaleik um allan skóg og svo var skemmtileg kvöldvaka þar sem herbergin komu öll með leiki til að láta hinar stelpurnar (og sumar foringja) spreyta sig á. Keppt var í actionary, eltingaleikjum þar sem þurfti að finna hluti í salnum, að koma appelsínum upp í hálsakot frá gólfi án þess að nota hendur, að moka bómullarhnoðrum úr skál fyrir framan sig upp í skál sem var borin á höfðinu með lokuð augun og fleira. Þetta var gríðarlega skemmtilegt.

Eftir kvöldvöku var kaffihúsakvöld í matsalnum þar sem eldhússtúlkurnar okkar höfðu bakað franska súkkulaðiköku og epplapæ sem þær buðu uppá með rjóma og ís. Foringjarnir sýndu atriði og sungu fyrir stelpurnar og allir nutu lífsins.

Í dag ætlum við að dekra við hverja aðra og punta okkur og undirbúa veislukvöldvökuna og atriðin okkar og svo verður sko veisla í kvöld.

Á morgun pökkum við svo saman, spjöllum og eigum notalega stund í kirkjunni áður en við svo kveðjumst og keyrum heim.

Áætluð heimkoma er kl 16 á Holtaveg 28.
Þetta eru frábærar stelpur sem þið eigið og hefur verið rosalega gaman að vera hér með þeim þessa viku.
En þær koma eflaust þreyttar heim og flestar með einhver flugnabit, nokkrar með talsverðan fjölda af þeim en vonandi allar ljómandi af gleði – allavega ljóma þær hér hjá okkur í dag.