Tvær fullar rútur af hressum og spenntum stelpum mættu upp í Vindáshlíð á miðvikudaginn síðasta. Sólin hefur leikið við okkur síðustu daga og stelpurnar búnar að upplifa margt skemmtilegt og nýtt.

Sem dæmi má nefna að á fyrsta degi fóru þær í ratleik um allt svæðið í kring og kynntust því, ásamt hvor annarri betur. Í gær var farið í gönguferð að gömlu réttunum í Kjós þar sem þær fóru í marga skemmtilega leiki og léku til dæmis kindur. Í dag fóru þær síðan í gönguferð að Brúðarslæðu þar sem þær léku sér þar í kring og nutu náttúrunnar í gleði og góðum félagsskap.

Kvöldvökur síðustu daga hafa einkennt hæfileika stúlknanna í flokknum sem er gríðarlegur, söngur, leikrit, leikir og fleira. Þá hafa þær fengið fullt af góðum mat, gert vinabönd, spilað spil og nutið þess að vera saman hér í Vindáshlíð.

Alla dagana hafa einnig verið íþróttakeppnir sem stúlkurnar taka þátt í og keppast um að verða Íþróttaherbergi Vindáshlíðar. Þar má nefna húshlaup, broskeppni, húlla, stigahlaup og störukeppni. Einnig hefur verið spennandi brennókeppni á hverjum degi þar sem herbergin keppast við að sigra og verða þar af leiðandi Brennómeistarar og fá að keppa við foringja á lokadegi.

Við hlökkum til næstu daga og að sjá hvað þeir bera í skauti sér.
Bestu kveðjur
Hulda og Ágústa Ebba