Í gær komu hingað 78 stúlkur. Nokkrar eru að koma í fyrsta skipti en stór hluti stúlknanna hefur komið áður. Eftir að stúlkurnar höfðu komið sér fyrir í herbergjum var farið í nokkra skemmtilega útihópleiki. Í kaffinu var boðið upp á bananabrauð og smákökur. Eftir kaffi hófst svo hin sívinsæla brennókeppni, þar sem herbergin keppa sín á milli um titilinn „brennómeistarar Vindáshlíðar “. Eftir kaffi hófst einnig íþróttakeppnin, en á hverjum degi er keppt í mismunandi greinum, en þær eru mjög fjölbreyttar, má nefna stígvélaspark, húshlaup og broskeppni. Í kvöldmat var píta, með hakki og grænmeti. Um 8 leytið var hringt á kvöldvöku, en í þetta sinn var spurningakeppni sem heitir „éttu Pétur “. En þar gátu stúlkurnar unnið sér inn karamellu þegar þær svöruðu rétt. Eftir kvöldvöku var kvöldkaffi og hugleiðing. Loks máttu stúlkurnar bursta tennurnar úti í læk (þær máttu líka bursta tennurnar inni ef þær vildu það frekar). Þegar bænakonurnar áttu að mæta inn á herbergi kom í ljós að þær höfðu allar falið sig annað hvort í húsinu eða úti í skógi og þurfti hvert herbergi að fara og leita að sinni bænakonu. Það voru því úrvinda, en glaðar stúlkur sem lögðust á koddann eftir langan og skemmtilegan dag.
Dagurinn gekk mjög vel og við biðjum að heilsa heim.
Kv. Pálína forstöðukona
Að sökum tæknilegra örðuleika kemur þessi frétt heldur seint inn, biðst afsökunar á því.