Því miður komst ég ekki í það að skrifa frétt í gær, en hér koma fréttir síðustu tveggja daga.
Miðvikudagur
Stúlkurnar voru vaktar klukkan hálf 10. Þá fór í gang hefðbundin morgundagskrá fram að hádegi. Á biblíulestri ræddum við um sjálfsmynd og samfélagsmiðla. Eftir hádegi var farið í gönguferð að Pokafossi og Brúðarslæðu þar sem stúlkurnar fengu að vaða í læknum. Á kvöldvöku var farið í leik sem heitir „Amazing Race “ en hann gengur út á að safna stigum með því að leysa fjölbreyttar þrautir. Eftir hugleiðingu fóru bænakonur inn á herbergi. Fljótlega eftir að bænakonur höfðu boðið góða nótt var stúlkunum tilkynnt að þær ættu að fara inn í setustofu, þar beið forstöðukonan og sagði þeim að næst á dagskrá væri leikurinn „horn í poka “. Eftir því sem sá leikur var betur útskýrður rann upp fyrir stúlkunum að þær væru á leiðinni í mjög leiðinlegan leik. Þær urðu því glaðar þegar foringjarnir kveiktu á tónlist, opnuðu inn í matsal og fóru að dansa – það var komið að hinu sívinsæla náttfatapartýi.
Eftir að allir höfðu skemmt sér vel í dansi fór hópurinn í setustofuna þar sem foringjarnir héldu uppi fjöri. Þríeykið „ Donna and the Dynamos“ sem við þekkjum úr Mamma Mia kíktu í heimsókn og eftir að þær höfðu tekið eitt lag mætti Sophie á svæðið og úr varð skemmtilegur leikþáttur sem endaði með því að stúlkurnar fengu frostpinna.
Að sökum þess hve seint þær fóru að sofa eftir náttfatapartýið var útsof til 11 í gær. Boðið var upp á morgunmat milli 10 og 11, og réðu stelpurnar því sjálfar hvort þær mættu í morgunmat. Í tilefni þess að stúlkurnar höfðu gist í Vindáshlíð í þrjár nætur og því formlega orðnar Hlíðarmeyjar var boðið upp á kókópuffs. Það vakti mikla lukku. Ekki minnkaði gleðin þegar þær mættu í hádegismat og matsalurinn hafði breyst í stóra salinn í Hogwarts skóla. Þema gærdagsins var semsagt Harry Potter og því var farið í Harry Potter leik í útiverunni. Umhverfi Vindáshlíðar fylltist af persónum úr Harry Potter bókunum og þurftu stelpurnar að flakka á milli þeirra og leysa margskonar þrautir. Allar fengu þær töfrasprota og ör á ennið.
Kvöldmatur var klukkan 7, að þessu sinni var svokallaður menningarkvöldverður. En þá draga stúlkurnar land á leið sinni inn í matsal. Flestar stúlkurnar lentu í Mósambík og á Indlandi, nokkrar á Ítalíu og í Eþíópíu og tvær enduðu á Íslandi. Það var mismunandi milli landa hvað var á boðstólum. Í Mósambík var boðið upp á graut, Indlandi hrísgrjón, Ítalíu pasta, Eþíópíu poppkorn og stúlkurnar tvær sem drógu Ísland fengu hamborgara, kók og prinspóló. Eins og gefur að skilja voru þær mjög mis ánægðar með sitt. Tilgangur leiksins er að þær átti sig aðeins betur á misskiptingu heimsins, það er sárt að vera svöng og fá bara graut en þurfa að horfa upp á aðra hafa meira en nóg fyrir sig. Ekki batnar það þegar girnilegum mat er hent í ruslið beint fyrir framan þig. Auðvitað fengu allar hamborga á endanum, því í Vindáshlíð pössum við vel að enginn sé svangur. En ég vona að leikurinn hafi opnað einhver augu.
Á kvöldvöku var farið í „minute to win it “, þar sem stúlkurnar leystu skemmtilegar þrautir á einni mínútu. Á hugleiðingu fjallaði Ester foringi um fyrirgefningu.
Þessi vika hefur liðið afskaplega hratt og í dag er runninn upp veisludagur og því skemmtilegur dagur framundan.
Bestu kveðjur úr Hlíðinni
Pálína