Í dag var komudagur stelpnanna í Hlíðina. Eftir að þær allar höfðu komið sér fyrir í herbergi var grjónagrautur og slátur í hádegismatinn og síðan hófst dagskráin, þar sem herbergin kepptu til dæmis í brennó, sumar stelpurnar kepptu í hlaupi og aðrar gerðu vina-armbönd. Eftir kvöldmat var haldin kvöldvaka þar sem þrjú stelpna herbergi voru með skemmtiatriði. Sumar voru með leikrit á meðan aðrar voru með leiki og einnig var mikið sungið. Eftir kvöldvöku var farið upp í kvöldkaffi og eftir það fóru stelpurnar að gera sig klárar fyrir háttinn og stór hópur stelpnanna fór í lækinn til þess að bursta í sér tennurnar. Eftir að allar stelpurnar voru búnar að gera sig klárar fyrir svefninn var hugvekja. Þar sem stelpurnar fengu að heyra hugvekju frá einum foringjanum og sungu róleg lög fyrir svefninn. Eftir hugvekjuna var ,,bænakonuleit‘‘ þar sem hvert herbergi þurfti að finna sína bænakonu. Það var leitað bæði úti og inni og sumar fundust fljótlega en aðrar ekki. Eftir leitina fóru þær inn í sitt herbergi með sinni bænakonu þar sem var spjallað og kynnst og farið með bænir fyrir svefninn.
Kveðja úr Hlíðinni,
Karen, forstöðukona.