Í dag voru stelpurnar vaktar hálf tíma seinna en gert var morguninn áður vegna náttfatateitisins sem var haldið í gærkvöldi. Eftir morgunmatinn og fánahyllingu var biblíulestur. Í biblíulestrinum komu tveir gestir til okkar í spjall sem að eiga það sameiginlegt að frásögn um þá er að finna í Nýja testamentinu. Gestirnir tveir sögðu okkur nánar frá frásögnum þeirra sem eru að finna í Nýja testamentinu og sögðu okkur frá því hvernig Jesús hefur mætt þeim. Eftir hádegismatinn í dag var síðan haldin hárgreiðslukeppni. Flestar stelpurnar tóku þátt í hárgreiðslukeppninni og sumar voru hárgreiðslukonur, aðar fyrirsætur og síðan voru sumar bæði hárgreiðslukonur og fyrirsæta. Eftir hárgreiðslukeppnina var kaffitími og í kaffinu var gulrótarkaka og kanillengjur. Eftir kaffi var frjáls tími og í boði var til dæmis að fara í sipp keppni. Eftir kvöldmat var síðan kvöldvaka þar sem þrjú herbergi sáu um skemmtiatriðin. Á kvöldvökunni var farið í nokkra leiki þar sem stelpurnar sem sáu um kvölvökuna báðu um sjálfboðaliða. Sumir sjálfboðaliðarnir voru stelpur úr flokknum en aðrir voru bænakonur. Sjálfboðaliðarnir þurftu að hrósa hvert öðru í eina mínútu annars yrði vatni hellt á þau og sá leikur gekk nokkuð vel. En síðan þurftu bænakonurnar að fara í einn annan leik þar sem þær áttu að finna brauðbita í púðursykri án þess að mega nota hendurnar og sá leikur krafðist fataskipta en ég held að ég og stelpurnar í Hlíðinni getum verið sammála um að þetta var mjög skemmtilegur leikur og gaman að fylgjast með honum, sérstaklega þar sem við ,,fórum hreinar frá borði‘‘ 🙂 . Eftir kvöldvökuna var síðan farið í kvöldkaffi og eftir það var hugvekja þar sem sungin voru nokkur lög og þar sem Ester foringi og bænakona eins stelpu herbergisins talaði um einstakleika hvers og eins okkar. Eftir hugvekju var kominn tími fyrir svefn og stelpurnar fóru að hafa sig til fyrir háttinn og eftir það komu bænakonurnar inn á herbergið þeirra og luku deginum með þeim.
Kveðja úr Hlíðinni,
Karen, forstöðukona.