Í dag var vaknað klukkan 9 og þegar stelpurnar voru búnar að klæða sig og gera sig klárar fyrir daginn var farið í morgunmat. Stelpurnar voru sérstaklega ánægðar með morgunmatinn í dag en það var í boði að fá súkkulaðikúlu morgunkorn. Eftir morgunmatinn fóru síðan stelpurnar á fánahyllingu og eftir það á biblíulestur. Í biblíulestrinum heyrðu stelpurnar söguna um miskunnsama Samverjann og á meðan á lestrinum stóð léku nokkrar stelpurnar persónurnar úr þeirri sögu. Í hádegismatinn í dag voru síðan kjötbollur og meðlæti og fljótlega eftir matinn var farið út í leik sem ber hjá okkur hér í Hlíðinni heitið „The Hunger Games“.  Eftir leikinn var kaffi og í kaffinu í dag var sjónvarpskaka. Eftir kaffi fóru sum stelpna herbergin að spila brennó, aðrar í sturtu og enn aðrar að æfa skemmtiatriði fyrir kvöldvökuna. Síðan var líka eftir kaffi í boði að keppa í tveimur einstaklingskeppnum og það var góð þátttaka í þeim keppnum. Á kvöldvökunni voru síðan síðustu stúlkna herbergin með skemmtiatriði. En á morgun er bæði lokakvöldið og veislukvöldið hjá fimmta stúlknaflokknum í Vindáshlíð þetta sumarið og þá sjá foringjarnir um skemmtiatriðin á köldvökunni og það er held ég mikil spenna hjá öllum fyrir kvöldinu á morgun. Annars var það þannig að eftir kvöldvökuna í kvöld var farið í kvöldkaffi og eftir það á hugvekjuna og síðan var háttað og bænakonurnar komu stelpunum í svefn.

Kveðja úr Hlíðinni,

Karen, forstöðukona.