Í morgun eftir morgunmat var engin biblíulestur því að allar stúlkurnar voru að undirbúa guðþjónustu. Skipt var í þrjá hópa, undirbúningar- og skreytingahóp, bæna-og sönghóp og leiklistarhóp. Lögðu sig allir fram við að undirbúa guðþjónustuna af bestu getu.
Eftir hádegi var svo haldið til kirkju þar sem stelpurnar skiptu með sér verkum. Nokkrar hringdu kirkjuklukkum á meðan aðrar léku Guðspjallið og enn aðrar fluttu bænir og söng. Að sjálfsögðu var svo kirkjukaffi á eftir. Það var ekki farið í neina göngu í dag því allir voru svo uppteknir af Guðþjónustunni en eftir kaffi hélt brennókeppnin áfram og er aldeilis farið að færast fjör í leikinn!
Barmahlíð, Hamrahlíð og Lækjarhlíð buðu upp á frábæra kvöldvöku eftir matinn og var mikið stuð en svo kom kvöldkaffi og hugleiðing og þurfti þá allir að róa sig niður. Þær voru fljótar að því og mjög snöggar að fara í rúmið en þær stoppuðu stutt í rúminu því stutt síðar komu foringjarnir og ráku þær úr rúminu til að fara í náttfatapartý!! Það var mikil stemning og stuð. Eftir vel lukkað náttfatapartý voru það úrvinda en sælar stúlkur sem fóru í rúmið og sofnuðu fljótt.