Dagurinn í dag byrjaði hefðbundið með morgunmat, fánahyllingu og biblíulestri. Eftir hádegismat var hins vegar úrslitaleikur í brennó! Þar áttust við Grenihlíð og Skógarhlíð og ríkti mikil spenna fyrir leikinn. Eftir að úrslit voru ráðin var farið í alls kyns leiki í íþróttarsalnum.

Kaffitíminn var á sínum stað og eftir hann byrjuðu stúlkurnar að undirbúa sig fyrir veislukvöldið. Haldin var hárgreiðslukeppni og tóku flestir þátt bæði sem módel og hárgreiðslu snillingar.

Klukkan 6 voru allar dömurnar komnar í sparifötin og var þá haldið upp að fána, í roki og smá rigningu, og hann dreginn niður. Þá sungum við „Vefa mjúka“ og halarófan tekin með trompi! Haldið var inn í veislusalinn og settist hvert herbergi við sér borð með sinni bænakonu. Borðaðar voru góðar pizzur og haft gaman saman. Tilkynnt var hverjir höfðu unnið allar keppnirnar sem haldnar voru og voru þær þó nokkrar!

Kvöldvakan byrjaði svo stuttu síðar eftir matinn og sá foringjar um skemmtunina. Það þarf varla að segja frá því að það var mikil gleði og stemning. Endalaust hlegið og haft gaman. Eftir þessa frábæru skemmtun var haldið upp í setustofu í hugleiðingu og fengu þær ís á meðan henni stóð. Mörgum fannst erfitt að fara sofa vegna spennings ekki bara því það var svo gaman í kvöld heldur eru þær yfir sig spenntar að fara heim á morgun. En allar sofa þær sætt og rótt núna.