Í morgun var borðaður góður morgunmatur og strax á eftir var farið í fánahyllingu þrátt fyrir veður. Biblíulestur hófst þar á eftir og að honum loknum var haldið áfram með brennókeppnina og byrjað á íþróttakeppnum.
Hádegismatur var á sínum stað og eftir hann var farið í útileik í góða veðrinu og sýndi það sig að það þarf ekki alltaf að vera sól og blíða til að hafa gaman. Stelpurnar fóru í skemmtilegan leik sem kallast „Biblíu smyglararnir“ . Þær voru sem sagt biblíu smyglarar og áttu að reyna finna biblíur(hvítir steinar með krossum á) sem faldar voru hér og þar um skóginn og koma þeim á griðarstað. Ekki var þetta svona auðvelt því foringjarnir breytust í yfirvald sem gerðu allt til að stöðva þetta smygl. Skemmtu þær sér konunglega og voru þær ekkert að láta veðrið stoppa sig því þær voru vel klæddar!
Í kaffinu var boðið upp á heitt súkkulaði því að það örlaði á kuldahrolli hjá þeim eftir rigninguna. Þegar því var lokið hélt brennó og íþróttakeppnirnar áfram.
Kvöldmaturinn var með styttra lagi því flestir vildu horfa á leikinn. Það var skemmtilegt að horfa á hann með svona hressum og skemmtilegum stelpum.
Á kvöldvökunni var svo hæfileikakeppni og tóku margir þátt og sýndu ótrúlega hæfileika.
Skemmtilegur og góður dagur á enda og sælar stúlkur sem héldu til rekkju.