Morgunninn hjá okkur var ósköp hefðbundin með morgunmat, fánahyllingu og biblíulestri og svo að sjálfsögðu brennó og íþróttir. Stelpurnar eru duglegar að taka þátt í öllu og finnst mörgum mjög huggulegt, eftir erilsaman morgun, að vera í setustofunni og hnýta vinabönd, öðrum finnst gaman að vera úti að leika og svo eru alltaf einhverjir sem vilja bara vera inn í herbergi og kjafta þar við félaga sína.
Eftir hádegismat var boðið upp á leik sem kallast „Amazing race“ . Herbergin voru saman í liði og áttu að leysa hinar ýmsustu þrautir þar á meðal að leggjast í lækinn, hlaupa niður að hliði, halda á könguló, finna texta í Biblíunni og margt, margt fleira. Þeim fannst þetta mjög skemmtilegt og var tíminn á milli hádegismatar og kaffitíma ekki nægur fyrir þær til að klára allt en þær urðu að hætta.
Eftir kaffi héldu íþróttirnar áfram og var einnig frjáls tími. Þegar kvöldmatnum var lokið var kvöldvaka og á kvöldvökunni var spurningaleikurinn „Éttu Pétur“ var það æsispennandi og skemmtileg keppni.
Fljótlega eftir kvöldvökuna var kvöldkaffi og hugleiðing. Eftir hana fengu stúlkurnar loksins að fara út í læk að bursta tennurnar og voru þær mjög kátar með það! Stúlkurnar voru snöggar að sofna í kvöld því þær voru alveg uppgefnar eftir daginn.