Í morgun þegar stúlkurnar vöknuðu kíktu þær í skóinn (þær fengu þau skilaboð að setja skóinn út í glugga í gærkveldi) og fundu þar kartöflu. Þær voru ekki sáttar við það! Í morgunmat var boðið upp á Coco Puffs því að við vorum að fagna því að stúlkurnar í flokknum eru orðnar Hlíðarmeyjar. Eftir morgunmat var fánahylling og biblíulestur og að sjálfsögðu brennó og íþróttir.
Eftir hádegismat var haldið af stað að Sandfellstjörn þar sem stúlkurnar fengu að vaða og skemmta sér.
Það var boðið upp á menningar kvöldverð. Þar drógu þær miða sem stóð á land og áttu þær að fara á afmarkað svæði sem var landið. Löndin voru Mósambík, Indland, Mexíkó, Ítalía og Ísland. Í Mósambík var boðið upp á litla skál með grjónum og gulrótum. Á Indlandi var boðið upp á karrý hrísgrjón. Í Mexíkó hakk og tortillur. Á Ítalíu var boðið upp á pasta og á Íslandi var boðið upp á hamborgara og franskar og kók með. Þessu var ekki jafnt skipt á milli allra. Eingöngu 2 stúlkur sátu við Íslands borðið en 10 sátu á gólfinu það sem Mósambík var. Þeim fannst þetta mjög ósanngjarnt og ræddum við þetta vel svo fengu allir hamborgara og franskar.
Eftir kvöldmat var kósý í setustofu sem breytist í jólaball. Dansað var kringum jólatré og skemmtu sér allir konunglega. Trölli og Sveinki mættu á svæðið og kom í ljós að Trölli hafði tekið Prins Pólóið sem Sveinki gaf þeim í skóinn og settu kartöfluna í staðinn.
Þetta var skemmtilegur dagur og allir fegnir að komast upp í rúm og sofa.