Unglingaflokkurinn í ár er ansi fámennur, aðeins 21 stúlka, en við gerum gott úr því og framundan eru skemmtilegir dagar.

Þegar komið var í Hlíðina í gær var byrjað á því að fara yfir reglur og svo var stúlkunum skipt í herbergi. Í hádegismat var blómkálssúpa. Eftir hádegi var farið í gönguferð að Sandfellstjörn þar sem stúlkurnar fengu að vaða og busla, en veðrið hefur leikið við okkur fyrstu tvo daga flokksins. Í kaffitímanum var boðið upp á köku og kryddbrauð. Eftir kaffi var keppt í húshlaupi og stúlkurnar höfðu frjálsan tíma til að gera það sem þær vildu. Í kvöldmat var indverskur kjúklingaréttur. Eftir kvöldmat var kvöldvaka þar sem mikið var sungið, loks var farið í ævintýrahúsið – en þar hittu stelpurnar marga litríka karaktera, til dæmis Kobba krók, nornina úr Mjallhvít, Elsu úr Frozen og Gullbrá.

Eftir kvöldvöku var kvöldkaffi og loks hugleiðing þar sem Helena foringi talaði um fyrirgefninguna. Eftir hugleiðingu var bænakonuleit þar sem hvert herbergi þurfti að komast að því hvaða bænakonur það fékk. Eftir að bænakonurnar höfðu verið með herbergjunum sínum í hálftíma fóru stelpurnar að sofa. Eða það héldu þær til að byrja með, en það gafst enginn tími til að sofa strax. Foringjarnir voru komnir í náttföt og með klósettpappír í hárið, það var komið náttfatapartý. Eftir skemmtilegt partý fóru þreyttar en ánægðar stúlkur í rúmið og sofnuðu mjög fljótt. Vegna þess hve kvölddagskráin var löng, var klukkutíma útsof í dag.

Við biðjum að heilsa heim, bestu kveðjur úr Hlíðinni
Pálína forstöðukona.