Jæja, þá er veisludagur runninn upp í Vindáshlíð. Veðrið heldur áfram að leika við okkur en það er glampandi sól þriðja daginn í röð.
Í gær var skemmtilegur dagur, vakið var klukkan 10. Í hádegismat var kjúklingalasanja. Eftir hádegi var farið í hinn sívinsæla hermannaleik. Það gekk mjög vel og skemmtu stelpurnar sér vel. Hermannaleikurinn gengur þó ekki einungis út á það að hafa gaman heldur viljum við fá stelpurnar til að hugsa um það hvað við erum heppnar að búa á Íslandi þar sem ekki er stríð. Það að fara í hermannaleik í klukkutíma er auðvitað ekkert í líkingu við það að búa í landi þar sem ríkir stríð, en þessi leikur hjálpar okkur samt að átta okkur á þeim forréttindum sem við búum við og því að við þurfum að gera okkar til að hjálpa þeim sem búa í alvöru við stríð.
Í kaffitímanum var boðið upp á sjónvarpsköku og súkkulaðibitakökur. Eftir kaffi var keppt í brennó. Á kvöldvöku var hæfileikakeppni og svo var keppt í Vindáshlíðarleikunum, en þar var keppt í fimm mismunandi keppnum.
Bænakonurnar enduðu daginn með herbergjunum sínum og fengu stelpurnar lengri tíma með bænakonum en venjulega, þær voru mjög ánægðar með það.
Í dag er svo veisludagur og spennandi dagskrá framundan sem endar með hinni sívinsælu foringjakvöldvöku í kvöld.
Bestu kveðjur Pálína forstöðukona