Þegar vakið var í morgun voru flestar stelpurnar vaknaðar enda spenntar fyrir öðrum degi þeirra í Hlíðinni. Þegar þær höfðu burstað tennur og klætt sig fóru þær í morgunmat og þaðan upp að fána en í Vindáshlíð er alltaf fánahylling þar sem við flöggum íslenska fánanum og syngjum fánasöng. Þaðan fóru þær á biblíulestur þar sem við ræddum um bænina og bænasvör. Það er gaman hvað þær eru duglegar að tjá sig um það sem við ræðum. Fram að hádegismat var frjáls tími. Keppt var í húshlaupi og broskeppni, en broskeppni gengur út á að brosa sem breiðast. Í hádegismat var plokkfiskur. Um tvöleitið var lagt af stað í gönguferð niður í réttir. Í réttunum var farið í leiki og svo var haldið heim. Í kaffitímanum var boðið upp á köku. Brennókeppnin hélt áfram eftir kaffi og nú standa eftir tvö lið sem keppa úrslitaleik á veisludag. Í kvöldmat var kjúklingasúpa. Kvölddagskráin hófst með kvöldvöku þar sem þau herbergi sem áttu eftir að vera með atriði voru með atriði. Allir skemmtu sér vel á kvöldvöku. Þar sem veðrið var afskaplega gott var ákveðið að hafa kvöldkaffi á grasinu fyrir utan kirkjuna okkar og svo var hugleiðing í kirkjunni. Eftir hugleiðingu gerðu stelpurnar sig til fyrir svefninn. Það braust út mikil gleði þegar í ljós kom að ekki átti að fara að sofa alveg strax heldur var náttfatapartý. Náttfatapartýið byrjaði með dansleik í matsalnum en færðist svo yfir í setustofuna þar sem foringjar stigu á stokk og skemmtu stelpunum. Tveir óvæntir gestir birtust svo á túninu fyrir framan húsið, þar voru á ferðinni hinar frægu Gilsbakkasystur. Þær komu í setustofuna og elduðu sér kvöldmat og skemmtu stelpunum. Kvöldið endaði með því að allar fengu frostpinna og forstöðukona las nokkrar sögur fyrir þær. Nokkrar höfðu orð á því að þetta hefði verið skemmtilegasti dagur sem þær hafa upplifað. Það var gaman að heyra það.
Þessi flokkur gengur mjög vel, þetta er virkilega skemmtilegur hópur og allir skemmta sér vel. Það eru komnar myndir úr flokknum inn á flickr síðu Kfum&Kfuk.
Kveðja Pálína forstöðukona