Í gær mættu 58 spenntar stúlkur í Hlíðina. Fram að hádegismat komu þær sér fyrir eftir að hafa verið skipt í herbergi og skoðuðu svæðið. Flestar hafa komið í Vindáshlíð áður en nokkrar eru að koma í fyrsta sinn. Í hádegismat var skyr og grillað brauð. Í útiveru var farið í leikinn Amazing Race, en þá safna herbergin stigum með því að leysa ýmsar skemmtilegar og miskrefjandi þrautir. Í kaffi var boðið upp á jógúrtköku og eftir kaffi var frjáls tími. Þá hófst einnig brennókeppni milli herbergja og íþróttakeppni. Í kvöldmat voru tortillur með hakki og grænmeti. Á kvöldvöku var farið í leik sem heitir minute to win it auk fleiri skemmtilegra leikja. Eftir kvöldvöku var haldið upp í matsal í kvöldkaffi, en boðið var upp á perur og banana. Á hugleiðingu talaði María foringi um gullnu regluna, en við ætlum að hafa hana að leiðarljósi þessa viku í Vindáshlíð. Bænakonuleit hófst um 10 leytið en þá áttu herbergin að finna sína bænakonu. Þegar herbergin fundu bænakonuna sína hófst bænó. Dagskráin var þó ekki alveg tæmd en óvænt náttfatapartý batt skjótan enda á bænakonustund. Partýið hófst með fjöldadansi í matsal þar sem allir skemmtu sér vel. Skemmtunin færðist inn í setustofu þar sem foringjar skemmtu stúlkunum þangað til að óvæntir gestir létu sjá sig. Þar voru á ferðinni prinsessa, prins og dreki. Gestirnir skemmtu stúlkunum og lauk þessari heimsókn þeirra með því að þau gáfu öllum íspinna.
Þá var dagskrá dagsins loksins lokið og þreyttar en kátar stúlkur sofnuðu fljótt eftir viðburðarríkan dag.
Kveðja Pálína forstöðukona