Flottur hópur af hressum stúlkum er nú kominn saman í Vindáshlíð. Við fórum frá Holtavegi rétt upp úr kl. 9:00 og komum í Vindáshlíð í ferskri golu og fallegri fjallasýn. Eftir skiptingu í herbergi var fljótlega hádegismatur – grjónagrautur sem féll vel í kramið. Þar kynntust stelpurnar bæði borðsöng Vindáshlíðar og helstu venjum í matsalnum. Eftir hádegi var ratleikur og kynnisferð um svæðið og í kaffitímanum gæddu stúlkurnar sér á brauði og nýbökuðum kökum. Síðan hófst íþróttakeppnin sem samanstendur af margskonar hefðbundnum og óhefðbundnum íþróttagreinum og gefur þátttaka hvers og eins stig fyrir herbergið. Keppt var í húshlaupi, haldin broskeppni (mælt hver hefur breiðasta brosið) og brennó, en brennókeppnin stendur milli herbergja allan flokkinn. Í kvöldmat var pastasalat sem rann ljúflega niður. Kvöldvakan var hefðbundin með leikjum og leikritum í umsjón þriggja herbergja og svo var auðvitað mikið sungið. Eftir kvöldhressingu enduðum við daginn inni í setustofunni þar sem við heyrðum hugleiðingu út frá Guðs orði. Síðan hófst „bænakonuleit“ þar sem hvert herbergi fékk vísbendingar sem þær notuðu til að byggja spurningar sínar á til starfskvennanna, sem svo leiddi þær á slóð þess hver yrði bænakona herbergisins í flokknum. Með bænakonunum spjalla herbergisfélagarnir sem liggja hver í sínu rúmi um atburði dagsins, heyra sögu eða syngja, en svo lýkur þessari notarlegu stund með bæn. Rétt um kl. 23:30 var komin ró í hverju herbergi og flestar voru sofnaðar stuttu síðar.
Yndislegur fyrsti dagur með fallegum hópi stúlkna.

Bestu kveðjur,
Auður forstöðukona