Það var bjartur morgunn hjá okkur í Vindáshlíð með ferskum vindi og léttum rigningarúða fyrir hádegi. Stúlkurnar voru vaktar kl. 8 og voru nokkrar þegar komnar á stjá. Eftir morgunmat og morgunstund með biblíulestri var brennókeppni og kraftakeppni. Í hádegismat var spagettí, kjöt og grænmeti og að afloknu uppvaski og frágangi var farið niður í réttir hér sunnan við þjóðveginn. Þar voru stúlkurnar „dregnar í dilka“ ásamt því að farið var í leiki. Seinni partinn rigndi nokkuð hressilega og því var dagskráin innandyra. Eftir hressingu í kaffinu, sem fól í sér gómsæta köku og kleinur, hélt brennókeppni milli herbergjanna áfram. Íþróttakeppnin hélt áfram með frumlegum íþróttagreinum, t.d. keppni í tímaskyni og stigahlaupi. Þá undirbjuggu 3 herbergi kvöldvökuna. Í kvöldmat var skyr og ávextir og gerðu þær matnum mjög góð skil. Kvöldvakan var lífleg og skemmtileg enda skemmtiatriðin vel æfð af stúlkunum. Eftir kvöldhressingu var hlýtt á hugleiðingu í setustofunni. Síðan fóru lúnar stúlkur að bursta tennur og undirbúa sig fyrir svefninn. Bænakonur spjölluðu góða stund við sínar stúlkur og langflestar voru komnar í draumaheima rétt upp úr klukkan ellefu. Þetta var góður dagur á dásamlegum stað og við erum þakklátar fyrir að stígvélin eru í þurrkherberginu í nótt.

Góðar kveðjur úr Vindáshlíð,
Auður forstöðukona