Í morgun voru stúlkurnar vaktar kl. 9:30. Allnokkrar hefðu viljað sofa lengur og virðast orðnar lúnar, enda fjörið verið talsvert síðustu daga. Strax mátti greina tilhlökkun að fara heim en líka ákveðinn söknuð yfir að flokknum væri að ljúka. Eftir morgunmat fóru stúlkurnar og pökkuðu sínum farangri og gengu frá töskunum. Síðan var blásið til brennóleikjar þar sem sigurlið stúlkna keppti við foringa. Eftir spennandi leik sigruðu foringjar með einu stigi. Þá var komið hádegi og í hádegismat voru pylsur í brauði og að honum loknum hittu foringjar hver sinn hóp, áttu með þeim kósí stund og færðu hverri stúlku söngbók Vindáshlíðar að gjöf ásamt armbandi. Eftir létta hressingu fórum við síðan upp í Hallgrímskirkju sem er kirkjan okkar hérna í Vindáshlíð. Þar áttum við lokastund saman, sungum, heyrðum sögu og fjölmargir óskilamunir voru auglýstir. Að stundinni lokinni fórum við beina leið í rútuna sem beið okkar og héldum áleiðis heim.
Allt er gott sem endar vel og nú kveðjum við Vindáshlíð að sinni. Það rigndi hressilega á okkur í dag en það voru innilega glaðar og sælar stúlkur sem lögðu af stað heim – þakklátar fyrir frábæra viku í Vindáshlíð, en líka tilbúnar að fara heim, hitta fólkið sitt og útskýra myndirnar sem eru á netinu.
Við þökkum fyrir samveruna og biðjum Guð að blessa hverja og eina, og vonum að minningin um Vindáshlíð og orð Guðs sem þar er boðað búi með okkur um ókomna tíð.
Með góðri kveðju og þökk fyrir líflega og skemmtilega viku,
Auður Pálsdóttir forstöðukona