Í gær komu hingað rúmlega 80 stúlkur. Nokkrar eru að koma í fyrsta skipti en flestar hafa komið áður. Eftir að stúlkurnar höfðu komið sér fyrir í herbergjum var hádegismatur. Í hádegismat var grjónagrautur. Eftir hádegismat var farið í ratleik, herbergin unnu saman að því að leysa ýmsar þrautir og svara skemmtilegum spurningum. Í kaffinu var boðið upp á kryddbrauð og súkkulaðiköku. Eftir kaffi hófst hin sívinsæla brennókeppni, en herbergin ellefu keppa sín á milli um titilinn „brennómeistarar Vindáshlíðar “. Keppnin er æsispennandi og ljóst að brennómetnaðurinn hjá þessum stúlkum er mikill. Eftir kaffi hófst einnig íþróttakeppnin, en á hverjum degi er keppt í mismunandi greinum, þær eru mjög fjölbreyttar, má nefna stígvélaspark, húshlaup og broskeppni. Í kvöldmat voru tortillur með hakki og grænmeti. Um 8 leytið var hringt á kvöldvöku. Kvöldvakan þetta kvöldið var hönnunarkeppni Vindáshlíðar. Hvert herbergi fékk stóran svartan ruslapoka og á hannaði flík úr ruslapokanum. Flíkurnar gátu þær svo skreytt með blómum, klósettpappír, garni og límbandi. Loks sýndu öll herbergin afrakstur kvöldsins.

Eftir kvöldvöku var kvöldkaffi og hugleiðing. Stúlkurnar fengu að bursta tennurnar úti í læk (þær máttu líka bursta tennurnar inni ef þær vildu það frekar). Eftir að allar stúlkurnar höfðu undirbúið sig fyrir svefninn hófst bænakonuleit. Hvert herbergi er með sína bænakonu sem endar daginn með þeim, en áður en bænakonutíminn byrjaði þurftu stúlkurnar að finna sína bænakonu út frá vísbendingum. Það tók sinn tíma en að lokum fundu öll herbergin bænakonuna sína.

 

Við biðjum að heilsa heim.

Kv. Pálína forstöðukona