Á öðrum degi okkar í Hlíðinni vöknuðum við klukkan 9. Það rigndi eins og flesta aðra daga, en við látum það ekki á okkur fá og njótum þess að vera saman í Vindáshlíð. Morgundagskrá var hefðbundin; morgunmatur, fánahylling, biblíulestur og loks frjáls tími, brennó og íþróttakeppnir fram að hádegismat. Í hádegismat var plokkfiskur og rúgbrauð. Klukkan tvö var hringt í útiveru og í þetta sinn var farið í leik sem heitir Amazing Race. Leikurinn gengur út á að safna stigum, en hægt er að leysa ýmsar þrautir sem gefa mismörg stig. Þrautirnar eru fjölbreyttar, skemmtilegar og reyna á ýmsa þætti. Til dæmis voru stig fyrir að leika undirritaða og komu fram margar stórskemmtilegar eftirhermur. Í kaffitímanum var möndlukaka. Eftir kaffi var aftur frjáls tími, brennókeppnin hélt áfram sem og íþróttakeppnin. Kvölddagskráin riðlaðist örlítið eins og við var að búast enda stórleikur á HM framundan sem flestir vildu horfa á. Matsalnum var breytt í HM sal, skjávarpi, fánar og þemalitur dagsins var, auðvitað, blár. Eftir æsispennandi fyrri hálfleik var sett kvöldmatarmet í Vindáshlíð. Í hálfleik var semsagt matartími, í matinn var skyr og grillað brauð. Þegar flautað var til seinni hálfleikjar voru þær flestar ef ekki allar búnar að borða og tilbúnar að hvetja Ísland áfram. Úrslitin voru vissulega svekkjandi en leikurinn var eins og þið sáuð líklega flest æsispennandi og stelpurnar voru duglegar að hvetja strákana okkar áfram. Þegar leiknum lauk byrjaði kvöldvaka. Farið var í spurningakeppni sem við köllum „éttu hnetur“. Sú keppni tengist hnetuáti alls ekkert en heitir þessu nafni engu að síður. Líklega því það rímar við „gettu betur“. Á hugleiðingu talaði Áslaug foringi um hvað það er mikilvægt að þakka fyrir allt það sem Guð gefur okkur. Bænakonur fóru inn á hvert herbergi en bænakonustundin endaði fyrr en venjulega því foringjarnir komu stelpunum að óvart með því að halda náttfatapartý. Partýið byrjaði eins og önnur góð partý með því að allir dönsuðu við nokkur vel valin lög inni í matsal. Partýið færðist svo yfir í setustofuna þar sem foringjarnir voru með nokkur skemmtiatriði. Að lokum komu óvæntir gestir, þar voru á ferðinni dreki, prinsessa og prins. Virkilega skemmtilegir gestir sem enduðu heimsókn sína á því að gefa öllum stelpunum íspinna.

Eftir allt þetta húllumhæ voru stelpurnar eðlilega orðnar nokkuð þreyttar eftir langan og viðburðarríkan dag. Þær sofnuðu því fljótt og sváfu vel.

 

Kveðja Pálína forstöðukona