Í dag vöknuðum við klukkan hálf 10. Morgundagskráin var eins og venjulega. Eftir hádegi var hermannaleikurinn, sem hefur verið með vinsælli dagskrárliðum í Vindáshlíð frá árinu 2005. Hann lýsir sér þannig að stelpurnar eru flóttamenn á stríðshrjáðu svæði og eiga herbergin að vinna saman sem fjölskylda til að finna griðarstaðinn. Leikurinn gekk vel en vakti sterkar tilfinningar bæði hræðslu, spennu og ánægju, yfirleitt allar í bland. Í kaffitímanum var boðið upp á súkkulaðibitakökur og bananabrauð. Nokkrir brennóleikir voru spilaðir eftir kaffi og eru línur farnar að skýrast í brennókeppninni sem er æsispennandi. Í kvöldmat var pasta. Þegar leið á kvöldið skutu allskonar ævintýrapersónur upp kollinum í Vindáshlíð og fóru allar stelpurnar í gegnum „ævintýrahúsið“. Þar hittu þær meðal annars Jack Sparrow, norn, Elsu úr Frozen og litlu hafmeyjuna. Bænakonur enduðu daginn með hverju herbergi eins og venjan er og voru þær lengur en venjulega sem gladdi stúlkurnar, enda eru bænakonurnar allar mjög skemmtilegar.