Þá er unglingaflokkur sumarsins tæplega hálfnaður. Flokkurinn telur 35 stúlkur á aldrinum 13-15 ára. Flokkurinn hefur gengið vel fyrstu tvo dagana og erum við búnar að bralla ýmislegt. Til dæmis er búið að fara í Amazing Race sem gengur út á að safna stigum með því að leysa fjölbreyttar þrautir, biblíusmyglaraleik en tilgangur leiksins er að stúlkurnar átti sig á því hversu mikilvægt það er að hafa trúfrelsi. Leikurinn sjálfur snérist um það að finna litlar biblíur í skóginum í kringum Vindáshlíð og koma þeim í neðanjarðarkirkju. Leikurinn heppnaðist vel og allir skemmtu sér en lærðu eitthvað í leiðinni. Boðið hefur verið upp á að horfa á undanúrslitin á heimsmeistaramótinu, farið var í spurningakeppnina „éttu Pétur“ og sitthvað fleira. Auk þess hafa stelpurnar keppt í brennó og ýmsum íþróttakeppnum. Kvöldkaffið í gærkveldi var svo einkar veglegt, það var nefnilega kaffihúsakvöld. Matsalnum var breytt í kaffihús og boðið var upp á eplaköku með rjóma og kakó. Eftir að stúlkurnar fóru að sofa í gærkveldi var óvænt náttfatapartý. Partýið byrjaði með rosalegum dansleik í matsalnum við dynjandi músík DJ Hildar. Eftir að allir voru búnir að dansa nóg var partýið flutt yfir í setustofuna þar sem foringjarnir skemmtu stúlkunum þangað til að prinsessa, dreki og prins mættu á svæðið og voru með mjög skemmtilegt skemmtiatriði.
Í augnablikinu er Harry Potter leikur í gangi, stelpunum hefur verið skipt niður í heimavisit Hogwartsskóla og leysa nú allskonar þrautir og hitta karaktera úr Harry Potter veröldinni.
Ég get ekki sagt að veðrið leiki við okkur, rok og rigning og útsýni ekki neitt. En við látum það ekki á okkur fá, gerum gott úr því sem við höfum og njótum þess að vera saman í Hlíðinni.
Minni á að Vindáshlíð er á instagram og við reynum að vera duglegar að sýna héðan í gegnum instastories. Endilega fylgið okkur þar. Einnig eru myndir á leiðinni á flickr síðu Kfum&K.
Bestu kveðjur Pálína