Afsakið fréttaleysið, en sökum þess hve stútfull dagskrá síðustu daga hefur verið hefur lítill tími gefist til þess að skrifa fréttir.
Vikan hefur liðið hratt enda höfum við haft nóg fyrir stafni. Í fyrradag var dagskráin þéttskipuð. Á biblíulestri ræddi undirrituð við stelpurnar um hlutverk kvenna í biblíunni, jafnréttisbaráttuna, Vigdísi Finnbogadóttur og stöðu kvenna í dag. Í kjölfar spruttu upp miklar umræður og höfðu stelpurnar margt til málanna að leggja og greinilegt að þær hafa mikinn áhuga á þessum málefnum.
Í hádegismat var skyr og brauð. Í útiverunni var farið í hermannaleikinn, sem hefur undanfarin áratug verið einn vinsælasti dagskrárliður í eldri flokkum hér. Stelpurnar höfðu fyrr í vikunni gert undirskriftalista sem þær nær allar skrifuðu undir og báðu okkur um að hafa hermannaleikinn á dagskrá.
Eftir kvöldmat var stutt kynning á starfsemi KSS (kristileg skólasamtök). Svo var farið í leik sem heitir „capture the hat“. Sá leikur er mjög líkur leiknum „capture the flag“ sem sumir hafa eflaust heyrt um. Þegar stelpurnar héldu að þær væru að fara að sofa hófst survivor Vindáshlíð. Við fórum því heldur seint að sofa það kvöldið en bættum það upp með því að hafa útsof á veisludag.
Dagskráin í gær var ekki af verri endanum. Eftir að hafa fengið að sofa út héldu stelpurnar í morgunmat og þaðan á fánahyllingu og svo beint upp í kirkju. Þar heyrðu þær söguna af því hvernig kirkjan okkar kom í Vindáshlíð, við ræddum um það hvað stæði upp úr eftir vikuna hér og hvað þær hafa lært. Í hádegismat voru kjötbollur. Úrslitaleikurinn í brennó var spilaður eftir hádegismat og Barmahlíð stóð uppi sem sigurvegari. Um miðjan daginn var haldið í göngu að Brúðarslæðu.
Formleg veislukvöldsdagskrá hófst klukkan hálf 7, hún var með hefðbundnu sniði; pitsur á borðum og viðurkenningar veittar fyrir allar þær keppnir sem keppt hefur verið í. Veislukvöldvaka hófst klukkan hálf 9, þar stigu foringjar á stokk og skemmtu stelpunum. Þegar kvöldvakan var hálfnuð birtust leynigestir flokksins söngvararnir Ari Ólafsson og Jakob Birgisson. Þeir fengu vægast sagt góðar móttökur og lá við að þakið rifnaði af húsinu. Þeir tóku nokkur lög, stelpurnar sungu og dönsuðu með og ég er nokkuð viss um að þetta kvöld líði hvorki þeim né stelpunum úr minni á næstunni.
Loks var haldið á hugleiðingu og kvöldkaffi. Bænakonur enduðu svo daginn á hverju herbergi eins og venjulega.
Þessi flokkur hefur verið ótrúlega skemmtilegur og gaman að kynnast stelpunum.
Vonandi sjáum við þær sem flestar að ári.
Við höfum verið í vandræðum með símann okkar, ef þið hafið verið að reyna að ná sambandi en ekki náð í gegn þá biðst ég afsökunar á því.
Bestu kveðjur Pálína forstöðukona.