Flottur hópur af hressum stúlkum kom hingað upp í Vindáshlíð í gær. Fljótlega eftir komuna var þeim skipt í herbergi og foringjarnir sýndum þeim svæðið. Í hádeginu fengu þær grjónagraut sem féll vel í kramið og stuttu seinna fóru stelpurnar í ratleik þar sem þær fengu tækifæri á að kynnast hvor annarri betur og svæðinu hér í kring. Í kaffitímanum var boðið uppá bananabrauð og súkkulaðiköku og sunginn var afmælissöngur fyrir afmælisbarn í flokknum. Að kaffitíma loknum hófst brennókeppni þar sem herbergin kepptu sín á milli, einnig var keppt í húshlaupi, boðið uppá garn til að gera vinabönd og nokkur herbergi undirbjuggu leikrit fyrir kvöldvökuna. Í kvöldmatinn fengu stelpurnar pítu með hakki og grænmeti. Á kvöldvökunni var mikið sungið og hlegið en stelpurnar sjá að mestu um kvöldvökurnar sjálfar. Eftir kvöldvökuna fengu stelpurnar kvöldhressingu og enduðu daginn saman á hugleiðingarstund. Þar sem veðrið var svo gott fengu stelpurnar að tannbursta tennurnar útí læk og þegar allir voru tilbúnir fyrir háttinn komu bænakonurnar inná herbergin.Hvert herbergi fær eina bænakonu og bænakonur koma inn til stelpnanna fyrir svefninn spjalla við þær um atburði dagsins, lesa eða syngja. Stundinni lýkur svo með lítilli bæn. Stúlkurnar voru fljótar að sofna enda þreyttar eftir viðburðarríkann dag.
Síminn hefur verið bilaður og ekki allir forráðamenn náð samband við okkur hér í Vindáshlíð en hann verður vonandi kominn í lag seinni partinn í dag. Ef þið náið ekki sambandi við okkur hér í Vindáshlíð þá getið þið líka hringt á Holtaveg.
Bestu kveðjur Þorgerður forstöðukona.