Góðann daginn.

Héðan úr Hlíðinni er allt gott að frétta. Lítið hefur verið um heimþrá hjá stelpunum og virðast þær vera mjög sælar með dvölina sína hér í Vindáshlíð.
Stúlkurnar fengu að sofa út í gærmorgunn enda þreyttar eftir viðburðar ríkan dag og óvænt náttfatapartý. Eftir morgunmat og fánahyllingu var farið á biblíulestur þar sem við töluðum um bænir okkar. Við lásum saman söguna ,,Þakkarkarfan“ úr bókinni ,,Við Guð erum vinir“ og ætlum á næstu dögum að skrifar niður bænir okkar í þakkarkörfu og bænakörfu og sjá hvor karfan fyllist fyrr. Að biblíulesti loknum kepptu stelpurnar í brennó og stigahlaupi, einnig var í boði að fá garn til að búa til vinabönd. Eftir að hafa fengið gómsætt Lasagne í hádeginu skelltu stelpurnar sér í gönguferð niður að réttunum þar sem farið var í leiki, í einum leiknum brugðu stelpurnar sér í hlutverk kinda og foringjarnir flokkuðu þær í dilka eftir lit á úlpu. Þegar heim var komið biðu okkar nýbakaðir snúðar og bollakökur sem stelpurnar skoluðu niður með ískaldri mjólk. Fram að kvöldmat var frjáls tími. Sumar áttu leik í brennó, aðrar voru að undirbúa kvöldvöku og flest allar tóku þátt í íþróttakeppnunum sem voru nákvæmniskeppni og kraftakeppni. Um kvöldið fengu stelpurnar ávaxtasúrmjólk með brauði og eftir matinn var kvöldvaka sem stelpurnar sáu um að mestu sjálfar. Þar fengum við meðal annarrs að hlýða á einsöng hjá tveimur stúlkum úr flokknum. Á hugleiðingarstundinni fengu stelpurnar síðan að heyra söguna um Strativaríus. Bænakonur enduðu svo daginn inná herbergi með sínu herbergi.

Bestu kveðjur Þorgerður forstöðukona