Hér er búið að vera mikið fjör og gaman. Veðrið hefur leikið við okkur þessa vikuna og við því mikið verið utandyra. Í dag hafa stelpurnar sofið þrjár nætur í Vindáshlíð. Það þýðir að þær sem eru að koma í fyrsta sinn eru nú formlega orðnar að hlíðarmeyjum. Í tilefni þess fengu þær kókópuffs í morgunmat. Á biblíulestri fórum við í Hallgrímskirkju sem er kirkjan okkar hér í Vindáshlíð og fengu stelpurnar að heyra söguna af því hvernig kirkjan endaði hér. Hallgrímskirkja var byggð 1878 en kom hingað árið 1957. Áður hafði hún verið í Saurbæ í Hvalfjarðarsveit. Eftir kirkjustundina var frjálstími. Sumar áttu leik í brennó, aðrar áttu eftir að taka þátt í íþróttakeppnunum og einhverjar stelpur söfnuðu saman í fótboltalið og spilaður var fótbolti fram að hádegismat. Í hádegismatnum fengum við kjúklingalæri með kartöflum og kokteilsósu. Við fórum síðan í leik í útiverunni sem kallast ,,Capture the flag“ sem vakti mikla lukku hjá stúlkunum. Fram að kvöldmat var síðan frjáls tími, tvö herbergi undirbjuggu kvöldvökuna og einhverjar stelpur kepptu við foringjana í brennó.
Eftir kvöldvöku og kvöldhressingu héldum við út í skóg þar sem kveikt var í varðeld og haldin hugleiðingarstund. Stúlkurnar enduðu síðan daginn með bænakonu sinni inná herbergi. Þar var bæði spjalla, sungið, lesið og farið með bænir.

Bestu kveðjur Þorgerður forstöðukona