Stelpurnar voru heldur betur glaðvaknaðar í gærmorgun og spenntar fyrir fyrsta heila deginum í Vindáshlíð. Eftir morgunmat var fánahylling og svo biblíulestur með forstöðukonu. Þá héldu íþróttakeppnir, föndur og brennóleikir áfram fram að hádegismat. Það var smá sól eftir hádegi og haldið var í göngutúr með stelpurnar í réttir í næsta nágrenni þar sem var farið í skemmtilega útileiki. Eftir kaffitíma hófst undirbúningur fyrir Vindáshlíð got Talent. Heilmargar stelpur stigu á svið um kvöldið og sýndu listir sínar. M.a. voru sýndar fimleikalistir, söngatriði, leikrit og spilagaldrar. Kynnar kvöldsins, Ryan og Sharpay úr High School Musical, héldu uppi rífandi stemmningu og foringjar í dómaragerfi gáfu stelpunum viðbrögð við atriðunum þeirra. Yndisleg kvöldstund var haldin eftir kvöldkaffi þar sem sagan af miskunnsama Samverjanum var sögð og stelpurnar minntar á að sýna hvor annarri kærleika og rétta út hjálparhönd þegar tækifæri gefast. Veðrið var stillt og fallegt um kvöldið svo þær fengu leyfi til að tannbursta sig í læknum sem er gömul og skemmtileg hefði í Vindáshlíð. Þegar þær voru komnar inn og tilbúnar í háttin komum við þeim á óvart með náttfatapartíi þar sem dansað og sungið var uppá borðum í matsalnum og svo stigu foringjarnir á stokk með ýmsum leikritum og skemmtiatriðum. Æðisleg stemning og stlepurnar fóru þreyttar en með stórt bros á vör í rúmið þar sem þær steinsváfu eftir langan dag.

Á eftirfarandi slóð má finna myndir úr flokknum. Það koma fleiri myndir seinna í kvöld!

Einnig er hægt að fylgjast með Vindáshlíð á Instagram! @vindashlid

Kveðja,
Kristín forstöðukona