Við í Vindáshlíð vöknuðum við glampandi sól í gærmorgun. Stelpurnar hvíldust vel yfir nóttina og mikil ró var í húsinu þegar þær voru vaktar í morgunmat. Eftir morgunmat og fánahyllingu í sólinni buðum við stelpunum uppí Hallgrímskirkju þar sem við sungum saman og ég sagði þeim aðeins frá sögu Vindáshlíðar og merkilegri sögu um það hvernig þessi kirkja var færð frá Saurbæ við Hvalfjarðarströnd uppí Vindáshlíð árið 1957. Brennófjör, broskeppni, kraftakeppni og fleira var á dagskrá fram að hádegismat. Í hádegismat fengu stelpurnar hamborgara eða grænmetisborgara að vild en svo létum við vita að fljótlega eftir hádegismat yrði haldin brunaæfing. Stelpurnar höfðu hlustað vel þegar útskýrt var hvernig bregðast skal við ef brunabjallan fer í gang og því tók stutta stund að koma öllum stúlkum út á fótboltavöll þar sem þær röðuðu sér í herbergisraðir. Beint í framhaldi var haldið í göngu að Brúðarslæðu, foss sem er í hállftíma göngufjarlægð frá Vindáshlíð. Það var ekki ský á himni og stelpurnar gátu vaðað í læknum sem lá niður frá fossinum. Þegar komið var til baka úr göngunni biðu nýbakaðar súkkulaðibitakökur handa stelpunum sem þær borðuðu úti í góða veðrinu. Brennókeppni og frjáls tími hélt áfram eftir kaffi en eftir kvöldmat var hárgreiðslukeppni! Seinna um kvöldið áttum við svo góða stund með stelpunum þar sem við sungum saman og einn foringinn hélt stutta hugleiðingu þar sem hún sagði þeim söguna Sporin í sandinum. Þær fengu aftur leyfi til að busta tennurnar út í læk áður en bænakonurnar heimsóttu herbergin sín og komu svo öllum í ró.

Annar góður og vel heppnaður dagur að baki!

Bestu kveðjur,
Kristín forstöðukona