Vikan hefur liðið allt of hratt og í gærmorgun þegar við fórum a fætur í Vindáshlíð var Veisludagur runnin upp! Þetta var þriðja nóttin sem stelpurnar höfðu gist í Vindáshlíð og því eru þær stelpur sem voru að koma í fyrsta skipti í Vindáshlíð nú formlega orðnar Hlíðarmeyjar. Þessu bar að fagna og því var boðið upp á Cocoa Puffs í morgunmat fyrir þær sem vildu. Eftir morgunmat var fánahylling og svo biblíulestur uppí kirkju en þar spjölluðum við saman um bænina. Undanúrslit og úrslit í Brennókeppninni fóru fram fyrir hádegismat og fóru allar stelpurnar uppí íþróttahús til að fylgjast með. Eftir plokkfisk í hádeginu var tvískipt dagskrá fyrir stelpurnar. Á meðan tvö og tvö herbergi voru fengin í æsispennandi Masterchef leik í matsalnum voru hin herbergin á meðan boðin velkomin í Föndur-paradís niðri í kvöldvökusal. Þar fengu þær að láta sköpunargleðina ráða för og m.a. voru gerðir ýmisskonar hattar, grímur, blómakransar og borðar fyrir veislukvöldið. Einni tókst meira að segja að föndra stjörnukíki. Þar næst fengu stelpurnar kakó og köku í kaffitímanum áður en þær héldu í að undirbúa Vinagang þar sem þær undurbjuggu m.a. nudd, hárgreiðslu, naglalökkun eða andlitsmaska og buðu hinum herbergjunum og foringjum að kíkja í heimsókn. Var virkilega gaman og góð stemmning. Svo gerðu stelpurnar sig til fyrir veislukvöld og þegar bjallan hringdi hittumst við allar uppi hjá fánastöng og “Ófum mjúka” alla leið niður á fótboltavöll og aftur inn í hús. Gömul og falleg vindáshlíðarhefð. Í Veislukvöldverðinum voru viðurkenningar gefnar fyrir íþróttir, brennó, innanhúskeppni, ratleikinn, hárgreiðslukeppni og Masterchef. Þar á eftir tók við loka kvöldvaka þar sem foringjarnir voru búnar að undirbúa skemmtiatriði. Stelpurnar dönsuðu og sungu með á milli atriði og skellihlóu yfir leikritum foringja. Svo var kvöldkaffi og lokastund eins og alla daga áður en bænakonur fylgdu stelpunum í svefninn.

Enn einn dásamlegur dagur með þessum flottu hlíðarmeyjum!

Myndir úr flokknum má finna á eftirfarandi slóð:

https://www.flickr.com/photos/kfum-kfuk-island/albums/72157696785238102/with/43242580124/

 

Ég minni á að stelpurnar koma heim í dag, laugardag 11. ágúst. Rútan kemur á Holtaveg 28 um klukkan 16.

Við sjáumst þá!
Kristín