Í fyrradag komu hingað rúmlega 80 stúlkur. Um það bil helmingur þeirra er að koma í fyrsta skipti. Eftir að stúlkurnar höfðu komið sér fyrir í herbergjum var hádegismatur. Í hádegismat var pulsupasta. Eftir hádegismat var farið í ratleik, herbergin unnu saman að því að leysa ýmsar þrautir og svara skemmtilegum spurningum. Í kaffinu var boðið upp á bananbrauð og möndluköku. Eftir kaffi hófst hin sívinsæla brennókeppni, en herbergin ellefu keppa sín á milli um titilinn „brennómeistarar Vindáshlíðar “. Eftir kaffi hófst einnig íþróttakeppnin, en á hverjum degi er keppt í mismunandi greinum, þær eru mjög fjölbreyttar, má nefna stígvélaspark, húshlaup og broskeppni. 

Í kvöldmat voru tortillur með kjúklingi og grænmeti. Um 8 leytið var hringt á kvöldvöku. Fjögur herbergi sáu um skemmtiatriði og léku stúlkurnar á alls oddi. Eftir kvöldvöku var kvöldkaffi og loks hugleiðing. Stúlkurnar fengu að bursta tennurnar úti í læk (þær máttu líka bursta tennurnar inni ef þær vildu það frekar). Bænakonur enduðu daginn í hverju herbergi og loks fóru stelpurnar að sofa.

Í gær vorum við afskaplega heppnar með veður hér í Vindáshlíð. Sólin skein allan daginn og nutum við þess vel. Eftir að hafa borðað fisk í hádegismat héldu stelpurnar í gönguferð að fossi sem heitir Brúðarslæða. Stelpurnar máttu vaða í læknum og njóta góða veðursins þangað til haldið var heim í kaffitíma. Í kaffitímanum var boðið upp á brauðbollur og skúffuköku. Eftir kaffi héldu brennó og íþróttakeppnirnar áfram auk þess sem stelpurnar fengu frjálsan tíma til að gera það sem þær vildu. Í kvöldmat var grjónagrautur og slátur. Kvöldvaka var með sama fyrirkomulagi og kvöldið áður. Þegar stelpurnar voru tilbúnar í háttinn hófst óvænt náttfatapartý og háttatíma því frestað. Náttfatapartýið hófst inni í matsal þar sem allir dönsuðu saman en seinna færðist partýið inn í setustofu og sáu foringjarnir um að skemmta þeim. Loks komu prinsessa, prins og dreki í heimsókn og enduðu partýið á því að gefa stelpunum frostpinna.

Fyrstu tveir dagarnir hafa því verið stútfullir af skemmtun og óvæntum uppákomum. Aðeins hefur borið á heimþrá, eins og eðlilegt er þegar margar eru að fara að heiman í fyrsta sinn.

Ég hef orðið vör við einhvern misskilning á því hvenær við komum aftur til Reykjavíkur. Flokkurinn klárast á laugardaginn og kemur rútan á Holtaveginn klukkan 16:00. 

Símatími er milli 11:30 og 12:00.

Við biðjum að heilsa heim.

Kv. Pálína forstöðukona