Í gær var eins og flestir muna þjóðhátíðardagur okkar Íslendinga. Auðvitað héldum við daginn hátíðlegan. Eftir morgunmat héldum við í skrúðgöngu og sungum Öxar við ána. Skrúðgangan endaði upp við fánastöng þar sem við flögguðum íslenska fánanum og svo héldum við til kirkju. Þar hélt fjallkonan stutta ræðu og svo heyrðu stelpurnar söguna af því hvernig Vindáshlíð eignaðist kirkju.

Eftir hádegismat var Harry Potter leikurinn sívinsæli. Á meðan stelpurnar skemmtu sér í veröld Harry Potter voru eldhússtarfsmennirnir duglegu að undirbúa kaffitímann því í kaffitímanum 17. júní er alltaf hátíðarkaka Vindáshlíðar og það tekur góða stund að skreyta hana (þið getið séð undirbúning hennar á Instagramsíðu Vindáshlíðar). Eftir að stelpurnar höfðu dáðst af kökunni var hún borðuð. Eftir kaffi héldu brennó og íþróttakeppnirnar áfram og stelpurnar fengu frjálsan tíma til að gera það sem þær vildu. 

Í kvöldmat var síðan hamborgari. Kvöldvökusalnum var breytt í bíósal og haft kósý bíókvöld. Kvöldið var þó ekki eingöngu rólegt því þegar stelpurnar voru háttaðar og héldu að þær væru að fara að sofa var óvænt náttfatapartý! Það byrjaði með dansi inni í matsal, svo mættu dansarar sem kepptu í danskeppni (getið líka séð það á instagramstory). Síðan hélt partýið áfram inni í setustofu þar sem foringjarnir voru með atriði og loks mættu á svæðið skúnkur, dreki, prinsessa og prins. Þau voru skemmtileg og fyndin og gáfu stelpunum frostpinna. 

Skemmtilegur dagur, skemmtilegar stelpur (og skemmtilegir foringjar). 

Kveðja Pálína forstöðukona