Það var eðalhópur stúlkna sem mættí í Hlíðina fyrir hádegi á mánudag. Þær voru augljóslega mjög spenntar fyrir vikunni því um leið og rútan hægði á sér til að beygja í Vindáshlíð brutust út mikil fagnaðarlæti. Eftir að allar höfðu komið sér fyrir í koju fengu þær grjónagraut í hádegismat. 

Því næst héldu þær í leik sem heitir Amazing Race, sá leikur gengur út á að safna stigum með því að leysa þrautir meðal annars að hjálpa Möggu Stellu ræsti að þrífa klósett (svo óheppilega vildi til að öll klósettin voru óhrein), gefa eldhússtarfsmönnum fallega gjöf, leggjast í lækinn (engar áhyggjur, sólin skein og það var hlýtt úti), semja dans, hlaupa niður að hliði, finna rúsínu í skóginum og margt fleira. 

Í kaffitímanum var boðið upp á möndluköku. Eftir kaffi hófst síðan brennókeppnin en í lok vikunnar mun eitt herbergi standa uppi sem sigurvegari og keppa við foringjana. Einnig kepptu stelpurnar í húshlaupi en þá hlaupa þær hringinn í kringum húsið. Í kvöldmat var plokkfiskur. Á kvöldvöku var farið í leik sem heitir bible smugglers. Þá eiga þær að safna biblíum í skóginum og koma þeim í neðanjarðarkirkju, en á sama tíma eru foringjar að reyna að ná þeim. Mjög skemmtilegur leikur sem vonandi vekur þær til umhugsunar um mikilvægi þess að hafa trúfrelsi. 

Eftir kvöldkaffi og hugleiðingu leituðu þær að bænakonunum sínum. En hvert herbergi hefur sína bænakonu sem endar daginn með þeim.

Í gær var vakið klukkan 9. Eftir morgunmat var fánanum flaggað og fánasöngur sunginn. Síðan var haldið á biblíulestur þar sem undirrituð talaði um biblíuna, miskunsama samverjann og framkomu okkar við aðra. Fyrir hádegismat voru spilaðir nokkrir brennóleikir og keppt í hopp-á-einum-fæti keppni. Í hádegismat var kjúklingur og meðlæti. Eftir hádegismat var haldið í göngu að Sandfellstjörn, þar sem veðrið var gott fengu stelpurnar að vaða í tjörninni þangað til haldið var heim í kaffi. Eftir kaffi voru spilaðir fleiri brennóleikir og keppt áfram í íþróttakeppnum auk þess sem þær höfðu frjálsan tíma til að gera það sem þær vildu. 

Á kvöldvöku var hönnunarsýning Vindáshlíðar, stelpurnar hönnuðu kjól úr ruslapoka og skreyttu með blómum og garni. Í kvöldkaffinu var boðið upp á ávexti og loks haldið á hugleiðingu. 

Síðan tannburstuðu þær sig og háttuðu en bænakonan kom ekki heldur var þeim smalað inn í matsal því forstöðukonan vildi lesa fyrir þær kvöldsögu. Kvöldsagan var afskaplega óspennandi, það óspennandi og leiðinleg að þær hlógu eins og undirrituð væri með uppistand. Kvöldsagan var trufluð með tónlist þar sem danskeppni milli foringja var við það að hefjast. Þið getið séð þau á instagramminu okkar (@vindashlid). Loks braust út náttfatapartý þar sem allir dönsuðu þangað til partýið færðist yfir í setustofuna þar sem foringjarnir voru með atriði. Við fórum því ansi seint að sofa í gær, en við sváfum út í morgun. Það er skemmtilegur dagur framundan og við biðjum að heilsa heim.

Þið getið séð myndir hér:  https://www.flickr.com/photos/kfum-kfuk-island/albums/72157709387385181

Símatími er á milli 11:30 og 12:00 alla daga, ef þið hringið utan þess tíma er ekki öruggt að ég sé við símann. 

Bestu kveðjur

Pálína forstöðukona.