Í gær var rigningardagur. Við vorum því meira innivið en úti. Við sváfum til tíu vegna þess hve náttfatapartýið kvöldið áður stóð lengi. Í hádegismat var skyr og í útiverunni fórum við í hópleiki í íþróttahúsinu okkar. Í kaffitímanum var boðið upp á bananabrauð og súkkulaðiköku. Eftir kaffi voru spilaðir nokkrir brennóleikir og keppt var í stigahlaupi. Annars var frjáls tími milli kaffitíma og kvöldmatar þannig stelpurnar gátu leikið sér úti eða inni. Á kvöldvöku stóð til að hafa hæfileikasýningu og því undirbjuggu þær sem vildu sýna hæfileika sína sig fyrir kvöldið.
Í kvöldmat var lasanja og síðan var haldið á kvöldvöku þar sem stelpurnar fóru á kostum. Margar fóru á svið, sungu, dönsuðu og léku leikrit. Svo var farið í kvöldkaffi, hugleiðingu og loks enduðu bænakonur daginn með hverju herbergi.
Í gær var dagskrá fyrir hádegi hefðbundin; morgunmatur-fánahylling-biblíulestur-frjálstími/brennó og íþróttir. Í hádegismat voru fiskibollur, hrísgrjón og karrýsósa. Í útiverunni var svo komið að því sem stelpurnar hafa beðið eftir og beðið um alla vikuna – hermannaleikurinn. Þessi leikur hefur verið vinsælasti dagskrárliður í ævintýraflokkum síðan árið 2004. Mikil fagnaðarlæti brutust út þegar þeim var tilkynnt hvað væri framundan. Í kaffitímanum var boðið upp á sjónvarpsköku og eftir kaffi hélt brennókeppnin áfram og þær fengu frjálsan tíma.
Í kvöldmat voru tortillur með kjúklingi og grænmeti. Á kvöldvöku var spurningakeppni og keppt í minute to win it. Dagurinn endaði svo eins og aðrir dagar með hugleiðingu og loks komu bænakonur.
Í dag er svo veisludagur, sólin skín og skemmtilegur dagur framundan.
Rútan leggur af stað frá Vindáshlíð klukkan 15:00 á morgun og verður komin á Holtaveg um klukkan 15:45.
Bestu kveðjur úr Hlíðinni
Pálína forstöðukona