Núna er unglingaflokkur sumarsins hálfnaður og nóg hefur verið um að vera.
Flokkurinn er í ár nokkuð fámennur, en það kemur ekki í veg fyrir skemmtilega dagskrá. Við höfum ýmislegt brallað. Á fyrsta degi var farið í splunkunýjan Amazing Race leik þar sem stelpurnar söfnuðu stigum á fjölbreyttan hátt. Í gær var farið í gönguferð að Sandfellstjörn og nesti haft með. Í dag var svo komið að hinum sívinsæla hermannaleik sem hefur verið fastur liður í óvissu og ævintýraflokkum síðan árið 2005. Kvöldvökurnar hafa ekki verið að verri endanum. Fyrsta kvöldið var ný tegund af bænakonuleit sem var einhverskonar samblanda af ratleik, þrautum og krossgátu. Í gær var ævintýrahús þar sem stelpurnar hittu Kobba krók, Sigga Sæta, Aríel og vondu stjúpuna úr sögunni um Mjallhvít. Fyrsta kvöldið var haldið náttfatapartý sem stóð lengi frameftir og samanstóð af dansipartýi og atriðum frá foringjum. Í gærkveldi var kvöldkaffið með öðru sniði en venjulega, kaffihúsakvöld. Þá máttu stelpurnar velja hvort þær fengu franska súkkulaðiköku eða eplaköku. Rjómi fylgdi með báðum kostum. Stelpurnar eru líka duglegar að nýta frjálsa tímann sinn í það sem þeim dettur í hug – síðustu daga hefur verið sérstaklega vinsælt að hrekkja foringja.
Við höfum líka borðað mikið, á matseðlinum hefur meðal annars verið indverskur kjúklingaréttur, grjónagrautur, fiskur í raspi, kjötbollur, pasta og auðvitað góðgæti í kaffitímanum.
Ég vil líka benda ykkur á instagram reikning Vindáshlíðar (@vindashlid). Við reynum að muna eftir því að setja í story þegar við gerum eitthvað skemmtilegt svo þið getið fylgst með okkur.
Kveðja Pálína forstöðukona