Stelpurnar sváfu vel og voru flestar enn steinsofandi þegar við vöktum þær kl. 9. Eftir morgunmat var morgunstund með forstöðukonu þar sem var sungið, gerð morgunleikfimi og svo lærðu stelpunrar að fletta upp versum í Biblíunni. Brennókeppnin hélt áfram og stelpurnar voru einnig duglegar að taka þátt í íþróttakeppnum. Í gær var kraftakeppni, broskeppni og svo var líka keppt í armbeyjum. Fyrir kaffitíma var hlaupið og gengið niður að hliði og svo haldið áfram í réttir sem eru hér í grendinni. Þar fóru foringjar í nokkra skemmtilega leiki með stelpunum. Sólin skein á þær og svo beið skúffukaka og kanillengjur eftir þeim þegar þær komu aftur uppí hús. Skógarhlíð, Hamrahlíð og Grenihlíð sáu um kvöldvökuna í gær og fóru að kostum með skrautleg leikrit og leiki fyrir hin herbergin. Einnig var sungið svo hátt að þakið ætlaði að rifna af húsinu. Stelpurnar fengu sér kvöldkaffi og svo í beinu framhaldi var hugleiðing inní setustofu þar sem Lilja foringi ræddi við stelpurnar um þakklæti. Allar voru svo búnar að hátta, bursta tennurnar, komnar inní herbergi og haldandi að það væri komin háttatími þegar foringjarnir komu óvænt í náttfötum, syngjandi inná gang, slóu pottlokum saman og tóku stelpurnar með sér í náttfatapartí. Þá var sungið og dansað uppá borðum með tónlist í græjunum og svo stigu foringjar á stokk og voru með leiki og smá leikþátt fyrir stelpurnar. Eftir mikinn hasar og hlátur fengu stelpurnar ís og ég las fyrir þær sögu þar til aftur var komin ró í hópinn. Þá fylgdu bænakonur stelpunum sínum inní herbergi og komu dauðþreyttum en glöðum stelpum í háttinn.

Ég minni á myndir úr flokknum á eftirfarandi slóð: https://www.flickr.com/photos/kfum-kfuk-island/albums/72157709816576021

Svo er símatími alla daga á milli 11:30 og 12 ef þið viljið hafa samband.

Bestu kveðjur úr Vindáshlíð,
Kristín forstöðukona