Stelpurnar sváfu vel og voru úthvíldar kl. 9 þegar Andrea foringi vakti þær með tónlist úr Aladín myndinni. Eftir morgunmat og morgunstund fóru fram síðustu brennóleikirnir fyrir úrslit og svo var frjáls tími þar sem margar gerðu vinabönd, skrifuðu kort eða léku sér á svæðinu í kringum Vindáshlíð. Eftir hádegismat var haldið í göngu að Brúðarslæðu sem er foss hér í nágrenninu. Þar var buslað smá í læk sem rennur frá fossinum áður en haldið var til baka í kaffi þar sem stelpurnar fengu nýbakaðar súkkulaðibitakökur og annað góðgæti. Fjögur herbergi, Víðihlíð, Eskihlíð, Gljúfrahlíð og Reynihlíð, sáu um kvöldvöku og nýttu tímann eftir kaffi í að undirbúa það. Hinar stelpurnar fóru ýmist í skotbolta niðri í íþróttahúsi, í aparólu, týndu ber úti í nátturunni eða höfðu það huggulegt á setustofunni eða inni í herbergjum. Það var hörkustemning á kvöldvöku og svo áttum við góða stund á hugleiðingu þar sem Rebekka foringi talaði við stelpurnar um það hvernig við erum aldrei einar, hvort sem við göngum í gegnum erfileika eða góða tíma. Stelpurnar bustuðu flestar tennurnar úti í læk þar sem veðrið var gott og biðu svo spenntar eftir að fá bænakonurnar sínar inní herbergi kl 22:15. Við finnum hvernig stelpurnar verða alltaf öruggari og öruggari að sofna á kvöldin og það sváfu allar vel í nótt.

Ég minni á að rútan kemur á Holtaveg á morgun, laugardag, milli 15:45 og 16. Ef stelpur verða sóttar uppí Vindáshlíð þá verður að hringja í síma 5667044 og láta vita hvenær þær verða sóttar.

Minni einnig á myndir úr flokknum: https://www.flickr.com/photos/kfum-kfuk-island/albums/72157709816576021

Bestu kveðjur úr Hlíðinni,
Kristín forstöðukona